Viðskipti innlent

„Gætum hæglega ráðið fleiri en hundrað flugmenn á næstu mánuðum“

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, segir fyrirtækið í miklum vexti.
Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, segir fyrirtækið í miklum vexti. Mynd/Anton Brink
„Heildarstarfsmannafjöldinn hjá okkur er um 1100 og við myndum vilja bjóða öllum þessum flugmönnum í viðtal að minnsta kosti,“ segir Skúli Mogensen, forstjóri WOW air. „Við gætum hæglega ráðið fleiri en hundrað flugmenn á næstu mánuðum.“

Greint hefur verið frá því að 115 flugmönnum verður sagt upp hjá Icelandair í haust vegna árstíðarbundinna sveiflna í komu ferðamanna. Skúli vill bjóða þeim sem standast hæfniskröfur að vinna fyrir WOW air.

Tilkynnt var um uppsagnirnar um helgina en auk flugmannanna 115 sem sagt var upp var 70 flugstjórum tilkynnt að þeir verði færðir niður í stöðu flugmanns næsta vetur.

Greint hefur verið frá því að uppsagnirnar séu hluti af reglulegri starfsemi Icelandair. Flugmenn séu ráðnir inn á vorin sem síðan sé sagt upp á haustin þar sem meira er um að vera í flugþjónustu yfir sumarmánuðina. 

„Það eru vissulega árstíðarsveiflur en við höfum reynt að halda úti eins þéttu leiðarkerfi og við getum. Líka yfir vetramánuðina,“ segir Skúli. „Við teljum það koma betur út og það minnkar allar sveiflur í rekstrinum. Við erum líka að stækka mjög ört, vöxtur um 60 til 70 prósent á milli ára og sjáum fram á að gera það líka í ár og næstu tvö árin,“ segir hann.

„Við reiknum með að tvöfalda fjölda farþega á næstu tveimur árum með tilheyrandi starfsmannaaukningu líka þannig að það lítur út fyrir að við þurfum að bæta við verulegum fjölda flugmanna á næstu mánuðum og árum.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×