Erlent

Hluti ferðabanns Trump tekur gildi

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump fagnar væntanlega fréttunum.
Donald Trump fagnar væntanlega fréttunum. Vísir/AFP
Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur numið lögbann á hluta svokallaðs ferðabanns Donald Trump Bandaríkjanna úr gildi. Dómurinn samþykkti jafnframt sérstaka kröfu Bandaríkjastjórnar um að hluti komubanns flóttafólks taki gildi.

Bandarískir fjölmiðlar segja dóminn munu taka ferðabann Trump til meðferðar í október næstkomandi þar sem ákveðið verði hvort ferðabannið verði staðfest eða dæmt ólöglegt.

Krafa Bandaríkjastjórnar gekk út á að ríkisborgarar frá sex ríkjum í Afríku og Miðausturlöndum, þar sem múslimar eru í meirihluta, verði meinuð innganga í Bandaríkin í níutíu daga og flóttamönnum í 120 daga.

Nær til þeirra sem skortir raunveruleg tengsl

Í dómnum sem féll í dag segir að ferðabannið geti tekið gildi gagnvart öllum þeim sem skortir raunveruleg tengsl við fólk eða stofnanir í Bandaríkjunum.

Dómararnir Clarence Thomas, Samuel Alito og Neil Gorsuch skiluðu séráliti þar sem þeir sögðust vilja að ferðabannið í heild sinni myndi taka gildi að endurskoðun lokinni.

Dómarar við alríkisdómstól á Hawaii og Maryland höfðu áður dæmt ferðabannið ólöglegt þar sem þeir sögðu það fela í sér mismunun.

Fréttirnar teljast sigur fyrir Trump forseta sem hét því í kosningabaráttunni síðasta haust að banna komu múslima til Bandaríkjanna til að draga úr hættu á hryðjuverkum.

Ferðabann Trump nær til ríkisborgara frá Líbíu, Íran, Írak, Sómalíu, Súdan og Jemen.


Tengdar fréttir

Ferðabann Trumps ekki samþykkt

Áfrýjunardómstóll í Bandaríkjunum hefur ákveðið að tilskipun Trumps um ferðabann sem meinar íbúum sex múslimalanda inngöngu inn í Bandaríkin, muni ekki taka gildi. Með því staðfestir dómstólinn ákvörðun neðra dómstigs í Maryland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×