Skoðun

Íslenska krónan: Blessun eða bölvun?

Guðjón Jensson skrifar
Undanfarin misseri hefur íslenska krónan styrkst mjög mikið og er að nálgast gengi sitt fyrir hrun. Á meðan hefur verðlag á vörum og þjónustu til erlendra ferðamanna rokið upp úr öllum skynsamlegum mörkum. Nú er svo komið að einfalt sjoppufæði hér á landi er farið að nálgast verðlag á þokkalegri máltíð með drykkjum t.d. í Þýskalandi. Þetta nær ekki nokkurri átt og er ýmsum aðilum innan ferðaþjónustunnar til vansa. Svona gengur ekki til lengdar!

Íslensk stjórnvöld virðast hafa mjög takmarkaðan skilning á að fyrirtæki sem eru annað hvort í ferðamannabransanum eða útflutningi geta ekki til lengdar staðið undir því að útgjöld fari vaxandi í íslenskum krónum en tekjurnar í evrum eða öðrum gjaldmiðli dragast saman.

Aldrei gengur til lengdar að hafa tekjur og útgjöld í sitt hvorum gjaldmiðlinum.

Hvað þarf að gera? Svo virðist sem íslenska ríkisstjórnin hafi enga stefnu í þessum málum aðra en að gera sem allra minnst. Að þessu leyti er hún höll undir „laissez-faire“ stefnuna þ.e. að leyfa markaðinum alfarið að ráða.

Með því að halda dauðahaldi í íslensku krónuna eru það þá spákaupmennirnir sem í raun ráða og hafa pólitíkusana í vasanum meira og minna. Þeir vilja hafa alla möguleika opna til að skara að sinni köku. Á meðan vex vandi ferðaþjónustunnar og útflutningsfyrirtækja.

Nú eru stærstu fyrirtæki landsins með ársuppgjör sín og reikninga í evrum eða öðrum gjaldmiðlum. Tekjurnar dragast saman með síhækkandi krónu og á meðan eykst þrýstingur á að hækka allan innlendan kostnað. Hvernig er unnt að finna rökrétta leið út úr vandanum þó svo það yrði þvert á sjónarmið íslenskra stjórnvalda?

Hvernig væri að þau fyrirtæki sem hafa tekjur sínar í erlendum gjaldmiðlum, miði samninga sína eftirleiðis gagnvart viðsemjendum sínum að þeir fari fram í evrum eða þeim gjaldmiðli sem þeim er hagfelldast? Viðskiptasamningar og kjarasamningar ættu að geta hljóðað upp á annan gjaldmiðil en íslenska krónu þegar svo stendur á. Íslenska krónan er einn minnsti gjaldmiðill heims og ætti fremur að vera safngripur en gjaldmiðill.

Viðskiptafrelsi er alltaf það sem verður ofan á. Þröngsýn ríkisstjórn sem vill einblína á skammtíma sjónarmið á ekki að lifa lengi.

 

Höfundur er leiðsögumaður.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×