Innlent

Táningur rændi síma af barni

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglan stöðvaði partí sem að eigandi íbúðarinnar vissi ekki af.
Lögreglan stöðvaði partí sem að eigandi íbúðarinnar vissi ekki af. Vísir/Eyþór
Sextán til átján ára piltur rændi farsíma af 12 ára dreng á Sundlaugavegi í Reykjavík laust fyrir klukkan níu í gærkvöldi og hefur ekki sést síðan. Upphaflega bað hann þann yngri að lána sér aðeins símann, hann þyrfti nauðsynlega að hringja, en hann hafði ekki fyrr tekið við símanum en hann tók til fótanna og hvarf. Hann er ófundinn.

Þetta kemur fram í dagbók Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þá virðist ungur maður í annarlegu ástandi hafa brotist inn í íbúð í Grafarvogi seint í gærkvöldi og slegið þar upp partíi. Nágrannar kölluðu á lögreglu vegna hávaða frá íbúðinni og var maðurinn handtekinn. Eigandi íbúðarinnar hafði ekki hugmynd um hvað þar gekk á.

Veiði- og útilegubúnaði var stolið úr geymsluskúr á baklóð heimilis í Kópavogi og tilkynnt var um þjófnað úr matvöruverslun í hverfinu. Þá hafði ungur maður farið úr versluninni án þess að greiða fyrir fulla körfu af vörum. Hann fannst skömmu síðar þar sem hann var kominn heim til sín með vörurnar. Þeim var skilað og málið var afgreitt á vettvangi, samkvæmt lögreglunni.

Þar að auki var brotist inn um glugga á leikskóla í Seljahverfi í Kópavogi, en ekki liggur fyrir hvort að einhverju hafi verið stolið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×