Erlent

Valls yfirgefur Sósíalistaflokkinn

Manuel Valls var forsætisráðherra í ríkisstjórn Sósíalistans Francois Hollande forseta á árunum 2014 til 2016.
Manuel Valls var forsætisráðherra í ríkisstjórn Sósíalistans Francois Hollande forseta á árunum 2014 til 2016. Vísir/AFP
Fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands, Manuel Valls, hefur sagt skilið við Sósíalistaflokkinn. Frá þessu greindi hann í viðtali við útvarpsstöðina RTL í morgun.

Valls var forsætisráðherra í ríkisstjórn Sósíalistans Francois Hollande forseta á árunum 2014 til 2016 og segist nú ætla að styðja ríkisstjórn Emmanuel Macron Frakklandsforseta.

Valls vann sæti á franska þinginu undir merkjum Sósíalistaflokksins í síðari umferð frönsku þingkosninganna sem fram fóru 18. júní. Sósíalistaflokkurinn beið afhroð í kosningunum þar sem hann tapaði rúmlega 250 þingsætum.

Valls segir Sósíalistaflokkinn ekki hafa náð að endurnýja stefnu sína í öryggismálum eða á sviði réttinda verkafólks. Valls hafði í forsætisráðherratíð sinni lagt til breytingar í þessum málum, en var harðlega gagnrýndur, meðal annars af samflokksmönnum.

Hann segist nú vilja vera hluti af meirihlutanum á þingi og hyggst greiða atkvæði með honum í atkvæðagreiðslu sem framundan er 4. júlí. „Það koma stundir þar sem maður verður að tala skýrt. Ég vil ganga inn í hjarta þessa meirihluta. Það er hluti af lífi mínu sem lýkur, ég yfirgef Sósíalistaflokkinn,“ segir Valls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×