Innlent

Búin að tína 2.200 kíló af rusli í fjörum á Reykjanesi

Atli Ísleifsson skrifar
Stúlkur í fjórða flokki Reynis og Víðis söfnuðu 660 kílóum af rusli á Garðskaga.
Stúlkur í fjórða flokki Reynis og Víðis söfnuðu 660 kílóum af rusli á Garðskaga. Aðsent
Búið er að safna 2.200 kílóum af rusli í strandhreinsunarátaki á Reykjanesi sem hófst í síðasta mánuði.

Fyrsta holl hreinsunarinnar fór fram í Grindavík í byrjun júnímánaðar þar sem safnaðist 1.500 kíló af rusli. Sjálfboðaliðar úr Ungmennafélagi Grindavíkur tóku þar þátt í hreinsuninni.

Í tilkynningu segir að síðastliðinn miðvikudag hafi svo verið gengið um fjöruna hjá Garðskagavita þar sem stúlkur í fjórða flokki Reynis og Víðis söfnuðu 660 kílóum af rusli. Næsti hreinsunardagur er svo fyrirhugaður í Sandgerði í júlí.

Að átakinu standa Nettó, Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjunum og Bláa hersins. 

Haft er eftir Tómasi J. Knútssyni, sem fer fyrir Bláa hernum, að það sé með ólíkindum að svo mikið rusl hafi safnast á svæðinu. Hann hafi sjálfur nýverið tínt slatta og kíki gjarnan þarna við, enda búsettur nálægt.

Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa, sem reka Nettó, segist hæstánægður með gang mála. „Við viljum leggja okkar að mörkum og fáum til liðs við okkur fólk frá hverju bæjarfélagi fyrir sig til að hjálpa okkur í þessu verkefni. Það er ekki annað hægt en að hrósa unga fólkinu af svæðinu sem gefur ekkert eftir. Okkur hefur gengið afar vel að safna rusli og erum bjartsýn á að þetta haldi svona áfram, enda rétt að byrja,“ er haft eftir Gunnari Agli í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×