Viðskipti innlent

Íslenskur tölvuleikur sem þjálfar tóneyrað kominn í App Store

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ýmsir skemmtilegir karakterar verða á vegi spilara Mussila Planets.
Ýmsir skemmtilegir karakterar verða á vegi spilara Mussila Planets. Rosamosi
Mussila Planets, íslenskur tölvuleikur úr smiðju tölvuleikjaframleiðandans Rosamosa, kom út í App Store og Google Play í gær. Tölvuleikurinn er sá fjórði í Mussila-leikjaseríunni en leiknum er ætlað að þjálfa tóneyra spilara sinna gegnum skapandi leik.

Úr spilun leiksins.Rosamosi
Í fréttatilkynningu frá framleiðendum tölvuleiksins segir að fyrirtækið Rosamosi, sem stendur að gerð leiksins, hafi verið stofnað árið 2015 af tónlistarkonunni Margréti Júlíönu Sigurðardóttur og tölvuverkfræðingnum Hilmari Þór Birgissyni. Fyrirtækið hefur það að markmiði að þróa tölvuleiki fyrir börn þar sem ævintýri og skapandi leikur eru nýtt til að kenna börnunum grunnatriði í tónlist. Fimm manns starfa nú daglega hjá fyrirtækinu.

Í Mussila Planets ferðast spilarinn um framandi plánetur en á leið sinni tekst hann á við tónlistarlegar áskoranir af ýmsu tagi, nælir í nótur og spilar laglínur.

Fyrsti leikurinn frá Rosamosa, Mussila – Musical Monster Adventure, kom út á alþjóðavísu í júní í fyrra og hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda. Leikurinn fékk meðal annars fimm stjörnu dóm í tímaritinu BBC Music Magazine. Þá hefur leikurinn verið notaður í tónlistarkennslu í öllum grunnskólum Garðabæjar og þremur skólum í Eistlandi.

Hér að neðan má sjá stiklu fyrir tölvuleikinn Mussila Planets en hann er sá fjórði í Mussila-leikjaseríunni á vegum Rosamosa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×