Íslenski boltinn

Síðustu 20: Ekki hægt að endurskrifa söguna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þó svo að Íslandsmótið í knattspyrnu sé meira en aldargamalt hefur stundum verið deilt um fyrstu ár mótsins og hvenær Íslandsmótið varð „alvöru“ mót, líkt og því sem þekkist í dag.

Málið var tekið fyrir í Síðustu 20 á Stöð 2 Sport í gær, meira til gamans, enda sagði Hörður Magnússon að þetta væri fyrst og fremst samkvæmisleikur, hvenær ætti að byrja að telja Íslandsmeistaratitla félaganna.

Íslandsmótið fór fyrst fram árið 1912 en aðeins þrjú lið tóku þátt í mótinu - Fram, KR og ÍBV. KSÍ var svo stofnað árið 1947 en tvöföld umferð var ekki tekin upp fyrr en tólf árum síðar. Deildin var svo fyrst skipuð tíu liðum árið 1977.

Eins og sjá má á meðfylgjandi töflu unnu þrjú af fjórum sigursælustu liðum sögunnar - KR, Valur og Fram - stóran hluta af sínum titlum á fyrstu áratugum Íslandsmótsins.

Tómas Þór Þórðarson grúskaði í sögunni og benti á að það hafi ekki verið nein bylting á Íslandsmótinu fyrstu árin eftir að KSÍ var stofnað. Það sé því erfitt að finna einhvern ákveðinn tímapunkt þar sem urðu mikil vatnaskil í sögu knattspyrnunnar.

„Sagan er alltaf sagan. Við getum ekki bara endurskrifað hana eins og okkur dettur í hug,“ bendir hann á.

Tómas og Hörður voru sammála um að árangur ÍA væri eftirtektarverður, ekki síst í ljósi þess að liðið hefur unnið flesta titla síðan að félagið var stofnað, hvort sem er miðað við stofnun KSÍ, tvöfalda umferð eða tíu liða deild.

Alla umræðuna má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×