Erlent

Eiginkona Bernie Sanders til rannsóknar vegna mögulegra fjársvika

Kjartan Kjartansson skrifar
Jane O'Meara Sanders hefur verið einn helsti pólitíski ráðgjafi eiginmanns síns Bernie Sanders.
Jane O'Meara Sanders hefur verið einn helsti pólitíski ráðgjafi eiginmanns síns Bernie Sanders. Vísir/EPA
Bandaríska alríkislögreglan FBI rannsakar nú hvort að eiginkona öldungadeildarþingmannsins Bernie Sanders hafi svikið út bankalán fyrir sjö árum. Fjölskyldan hefur staðfest að hún hafi fengið lögmann til að verja sig.

Forsaga málsins er sú að Jane O'Meara Sanders, eiginkona þingmannsins, var forseti lítils háskóla í borginni Burlington í Vermont-ríki árið 2010. Hún er sökuð um að hafa veitt banka villandi upplýsingar og gefið fölsk fyrirheit til að fá tíu milljón dollara lán fyrir kaupum á landareign fyrir skólann. Hún hætti störfum hjá skólanum ári síðar.

Washington Post segir að lögmaðurinn sem kærði fjársvikin í fyrra hafi verið formaður forsetaframboðs Donalds Trump í Vermont. Lögmaðurinn sakaði Bernie Sanders um að hafa notað stöðu sína sem þingmaður til að þrýsta á bankann til að veita lánið.

Talsmaður Sanders-hjónanna segir að ásakanirnar séu pólitískar árásir. Jane Sanders hafi aðeins verið að reyna að bæta stöðu Burlington-háskólans á heiðarlegan hátt. Skólinn lokaði í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×