Innlent

Lögregla og sérsveit kallaðar að heimili hælisleitenda á Kjalarnesi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Arnarholt á Kjalarnesi.
Arnarholt á Kjalarnesi. Vísir/Vilhelm
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit Ríkislögreglustjóra voru kallaðar út nú rétt fyrir þrjú vegna „óróa“ í Arnarholti sem er heimili hælisleitenda á Kjalarnesi.

„Það er einhver órói þarna en við vitum ekki hversu umfangsmikið þetta er. Það er þó ekkert sem bendir til þess að það hafi komið til átaka en við sendum tvo lögreglubíla og tvo sérsveitarbíla engu að síður öryggisins vegna þar sem þarna er þó nokkuð af fólki,“ segir Árni Þór Sigmundsson, stöðvarstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi.

Sérsveitin var einnig kölluð til að Arnarholti í september í fyrra og þá af sömu ástæðu þar sem óljóst var hvað væri í gangi þegar útkallið kom. Engin slagsmál voru þá í gangi og leystist málið friðsamlega.

Uppfært klukkan 15:44: Lögreglumenn er nú farnir af vettvangi og segir Árni Þór að útkallið hafi verið minniháttar.

„Þetta var að einhverju leyti byggt á misskilning. Það hafði ekki komið til neinna átaka eða neitt slíkt en það var einhver órói þarna samkvæmt útkallinu og ekki vitað hvað var í gangi. Þess vegna var nægur mannskapur sendur á staðinn,“ segir Árni Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×