Handbolti

Sigfús Páll tekur fram skóna og spilar með nýliðunum í vetur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigfús Páll í gula búningnum.
Sigfús Páll í gula búningnum. mynd/fjölnir
Nýliðar Fjölnis í Olís-deild karla halda áfram að safna liði en í dag skrifaði Sigfús Páll Sigfússon undir tveggja ára samning við félagið. Þetta kemur fram á heimasíðu Fjölnis.

Sigfús, sem er 31 árs leikstjórnandi, var aðstoðarþjálfari Fjölnis á síðasta tímabili en hefur nú tekið skónna af hillunni.

Sigfús er uppalinn hjá Fram og varð Íslandsmeistari með liðinu árið 2006. Sama tímabil var Sigfús valinn efnilegasti leikmaður efstu deildar og besti sóknarmaðurinn á lokahófi HSÍ.

Sigfús færði sig um set til Vals 2007 og lék með Hlíðarendafélaginu í þrjú ár áður hann fór aftur til Fram. Sigfús varð Íslandsmeistari með Fram í annað sinn 2013.

Sumarið 2014 hélt Sigfús til Japans, heimalands móður sinnar, og lék með Wakunaga í Hírósíma. Hann flutti aftur til Íslands vorið 2016 en hann hafði þá glímt við erfið veikindi sem héldu honum utan handknattleiksvallarins

Sigfús er fjórði leikmaðurinn sem Fjölnir fær í sumar. Áður höfðu þeir Theodór Ingi Pálmason, Bergur Elí Rúnarsson og Andri Berg Haraldsson gengið í raðir félagsins. Þeir komu allir frá KR.

Fjölnir vann 1. deildina með yfirburðum á síðasta tímabili og leikur því í Olís-deildinni á næsta tímabili, í fyrsta sinn í sögu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×