Erlent

Hóta að taka repúblikana af spenanum þar til þeir ná málum í gegn

Kjartan Kjartansson skrifar
Koch-bræðurnir og afskipti þeirra af stjórnmálum eru umdeild vestanhafs.
Koch-bræðurnir og afskipti þeirra af stjórnmálum eru umdeild vestanhafs. Vísir/AFP
Þingmenn repúblikana hafa verið varaðir við því að þeir fái ekki lengur aðgang að fjármunum frá Koch-bræðrunum auðugu þar til þeir koma nýjum sjúkratryggingalögum og breytingum á skattkerfinu í gegnum Bandaríkjaþing.

Bræðurnir Charles og David Koch eru á meðal ríkustu manna heims. Þeir hafa verið gríðarlega mikilvægir fjárhagslegir bakhjarlar Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum undanfarin ár. Styðja þeir frambjóðendur sem þeir telja að muni framfylgja pólitískum hugsjónum þeirra sem felst meðal ananrs í skattalækkunum og afregluvæðingu.

The Guardian segir hins vegar að Koch-bræðurnir hafi komið þeim skilaboðum til repúblikana að þeir séu langeygir eftir árangri á ráðstefnu bakhjarla og þingmanna repúblikana um helgina. Blaðið hefur eftir Doug Deason, einum bakhjarlanna frá Texas að „sparibaukurinn frá Dallas“ sé nú lokaður þangað til repúblikanar komi frumvörpum í gegnum þingið.

Óttast að tíminn renni út fyrir kosningarnar á næsta ári

Þrátt fyrir að þeir hafi meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings hefur gengið erfiðlega fyrir repúblikana að samþykkja ný sjúkratryggingalög til að koma í staðinn fyrir lögin sem Barack Obama, fyrrverandi forseti, kom á og hafa verið kennd við hann. Frumvörp sem repúblikanar hafa lagt fram hafa reynst afar óvinsæl á meðal almennings.

Forystu flokksins hefur heldur ekki auðnast að semja frumvarp sem hugnast bæði hófsömum repúblikönum og þeim sem vilja ganga enn lengra í að takmarka aðkomu alríkisstjórnarinnar að sjúkratryggingum. Koch-bræður styðja síðarnefnda hópinn.

Á meðal þess sem Koch-bræður hafa fjármagnað er afneitun á loftslagsvandanum.Vísir/AFP
Þá eru Koch-bræður og bakhjarlar í pólitísku þrýstineti þeirra sagðir ósáttir við að meiriháttar breytingar á sköttum hafi enn ekki orðið að veruleika.

Sjá einnig:Heilbrigðisfrumvarp repúblikana á gjörgæslu

Telja þeir skamman tíma til stefnu fyrir þingkosningarnar sem fara fram á næsta ári. Þá verður kosið um öll sæti í fulltrúadeildinni og þriðjung sæta í öldungadeildinni.

Þrátt fyrir það segja starfsmenn þrýstihóps Koch-bræðranna að þeir hafi 300 til 400 milljónir dollara úr að spila í kosningabaráttunni sem er framundan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×