Innlent

Fólk sem varð fyrir tjóni á Austurlandi hvatt til að hafa samband

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Tjón sem varð í aur- og vatnsflóðunum á Austurlandi á föstudagskvöld hleypur á tugum milljónum. Fulltrúar frá Viðlagatryggingu Íslands fóru austur í dag til að meta tjón á fasteignum en búist er við að heildarmati verði lokið á næstu tveimur til þremur vikum.

Skemmdirnar eftir útkomuna sem olli aur- og vatnsflóðum á Austurlandi á föstudagskvöld eru óðum að koma í ljós. Flóðin féllu á Eskifirði og Seyðisfirði og varð tjón á um fjörutíu stöðum á svæðinu, þó mest á Seyðisfirði.

„Við erum búnir að vera fylgjast með ástandinu síðan á föstudagskvöldið þegar atburðirnir hófust og nú er svona farið að róast yfir svæðinu og við erum búnir að koma hér í morgun til þess að kynna okkur betur aðstæður,“ segir Jón Örvar Bjarnason, byggingarverkfræðingur hjá Viðlagatryggingu Íslands.

Jón Örvar segir útlitið ekki hafa verið gott á föstudagskvöld þegar aur- og vatnsflóðin fóru af stað.

„Okkur leist satt best að segja ekki mjög vel á stöðuna. Það var gríðarleg úrkoma og geysilegir vatnavextir í öllum ám og lækjum og það er eiginlega eins og við séum komin á annan stað núna miðað við það sem þá var,“ segir Jón Örvar.

Fulltrúar Viðlagatryggingar hafa þegar hafið störf á svæðinu og munu meta tjón á fasteignum og vátryggðu lausafé á að minnsta kosti helmingi þeirra staða þar sem tjón varð. Jón Örvar segir að matið muni ganga hratt fyrir sig og muni ljúka í þessari viku.

„Okkur vantar reyndar enn þá einhverjar tilkynningar til okkar frá fólki sem hefur orðið fyrir tjóni og viljum hvetja þá til þess að tilkynna tjónið á vidlagatrygging.is.  

Jón Örvar segir erfitt að meta tjónið á svæðinu en þó mun það hlaupa á tugum milljóna en að það muni skýrast betur á næstu tveimur til þremur vikum.

„Viðlagatrygging vátryggir allar fasteignir á Íslandi og þeir sem hafa lausafé sitt eða innbú brunatryggt hjá vátryggingafélögunum, þeir eru einnig vátryggðir fyrir vatnsflóðum og aurflóðum,“ segir Jón Örvar.


Tengdar fréttir

Tjónið í flóðunum fyrir austan hleypur líklega á tugum milljóna

Sextán til tuttugu hús á Seyðifirði og tvö á Eskifirði urðu fyrir tjóni sem fellur undir bótaskyldu viðlagatryggingar í vatnsveðrinu þar um helgina. Framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar Íslands telur tjónið hlaupa á tugum milljóna króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×