Innlent

Skjálftahrina á Kolbeinseyjarhrygg í rénun

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Skjálftahrina sem hófst á Kolbeinseyjarhrygg í gær er í rénun. Tveir skjálftar, rúmlega fjórir að stærð urðu á svæðinu og á eftir fylgdi rúmur tugur skjálfta af stærðinni þrír. Jarðskjálftafræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir að ekki sé hægt að útiloka stóran skjálfta norðanlands.

Skjálftahrina sem staðið hefur yfir er á þekktu brotabelti á Kolbeinseyjarhrygg, 230 km. norður af Melrakkasléttu. Erfitt er að staðsetja skjálftana nákvæmlega vegna fjarlægðar en hrinur sem þessar eiga sér reglulega stað.

„Þessar flekahreyfingar teljast eðlilegar. Ísland liggur á flekaskilum og þarna á þessum flekaskilum er þetta þverbrotabelti og þar á sér stað norður hreyfing sem myndar spennu og getur leyst út skjálftahrinu eins og þessa,“ segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Einar segir að skjálftar á þessum slóðum hafi lítil sem engin áhrif hér á landi. Hann getur þó ekki ekki útilokað stóran skjálfta í náinni framtíð á Norðurlandi.

„Það hafa orðið mjög stórir skjálftar fyrir norðan og það er ekki útilokað að það verði stórir skjálftar bæði fyrir norðan, á Tjörnesbrotabeltinu og líka á Suðurlandsbrotabeltinu,“ segir Einar.

Í viðtali við Pressuna árið 2012 sagði Ragnar Stefánsson, jarðeðlisfræðingur  að hann teldi miklar líkur á því að stór jarðskjálfti yrði undan strönd Norðurlands á næstu tuttugu árum og í viðtali við Kristján Má Unnarsson hér á Stöð 2 í maí síðast liðnum, sagði Ragnar að búast mætti við allt að sjö stiga jarðskjálfta í Rangárvallasýslu og öðrum, allt að 6,5 stig á Bláfjallasvæðinu, sitthvoru megin skjálftanna sem urðu á Suðurlandi á síðasta áratug. 

„Þessir skjálftar sem við sjáum nú eru mun norðar en þessir skjálftar sem að Ragnar var að spá um“ segir Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×