Fótbolti

Þýskaland vann England eftir vítaspyrnukeppni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Tammy Abraham skoraði í leiknum en klúðraði í vítaspyrnukeppninni.
Tammy Abraham skoraði í leiknum en klúðraði í vítaspyrnukeppninni. vísir/getty
Þetta hefur gerst áður. Já, Þýskaland lagði England í vítakeppni til þess að komast í úrslitaleik EM-liða 21 árs og yngri. Englendingar gráta enn eina ferðina eftir rimmu gegn þeim þýsku.

Þjóðverjar byrjuðu leikinn betur því Davie Selke kom þeim yfir á 35. mínútu leiksins. Demarai Gray jafnaði fyrir England sex mínútum síðar og 1-1 í leikhléi.

Það voru aðeins liðnar fimm mínútur af síðari hálfleik er Tammy Abraham kom Englendingum yfir í leiknum. Það dugði þó ekki til því Felix Platte jafnaði 20 mínútum fyrir leikslok og þar við sat.

Staðan 2-2 eftir venjulegan leiktíma og því varð að framlengja. Ekki var skorað þar þrátt fyrir sérstaklega mikla pressu frá Þjóðverjum sem skutu 38 sinnum, já 38 sinnum, að marki í leiknum en Englendingar 17 sinnum. Þjóðverjar voru með boltann um 70 prósent leiktímans.

Vítaspyrnukeppni var því niðurstaðan sem er fyrirfram martraðarstaða fyrir England. Eitthvað sem enginn vildi sjá þar í landi. Englendingar æfðu vítaspyrnur fyrir leikinn en Þjóðverjar slepptu því.

Staðan í vítakeppninni var 3-3 fyrir lokaumferðina. Þjóðverjar skoruðu úr sinni spyrnu en Nathan Redmond lét verja frá sér og Þjóðverjar fögnuðu.

Þeir spila við Spán eða Ítalíu í úrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×