Erlent

Skotar fresta þjóðaratkvæðagreiðslu og vilja sæti við Brexit samningaborðið

Heimir Már Pétursson skrifar
Forsætisráðherra Skotlands sagði á skoska þinginu í dag að margt benti til að Skotar væru orðnir þreyttir á stórum pólitískum ákvörðunum og kosningum.
Forsætisráðherra Skotlands sagði á skoska þinginu í dag að margt benti til að Skotar væru orðnir þreyttir á stórum pólitískum ákvörðunum og kosningum. vísir/epa
Skoska stjórnin hefur fallið frá því að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands frá Bretlandi á næstu tveimur árum. Forsætisráðherra Skotlands segir nú rétt að bíða eftir útkomu Brexit viðræðnanna áður en boðað verði til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í mars á þessu ári tilkynnti stjórn Skoska þjóðarflokksins að ný þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæðis Skotlands frá Bretlandi færi fram árið 2018 eða 2019. Kannanir benda hins vegar til að stuðningur Skota við sjálfstæði hafi minnkað.

Nicola Sturgeon forsætisráðherra Skotlands sagði á skoska þinginu í dag að margt benti til að Skotar væru orðnir þreyttir á stórum pólitískum ákvörðunum og kosningum. Nú telji hún rétt að bíða eftir niðurstöðu Brexit samninganna áður en gengið verði til þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Þess í stað munum við í góðri trú setja aukinn þunga og leggjast á árarnar með að hafa áhrif á Brexit viðræðurnar til að verja skoska hagsmuni,“ segir Sturgeon.

Þá segir hún mikilvægt að allir flokkar á skorska þinginu standi saman til að hafa sem mest áhrif á Brexit viðræðurnar.

„Skoska stjórn hefur meiri möguleika á að hafa jákvæð áhrif á niðurstöður Brexit viðræðnanna ef við erum við samningaborðið. Með fullum stuðningi skoska þingsins þar sem við færum rök fyrir þeirri skynsamlegu niðurstöðu að vera áfram hluti af sameiginlega markaði Evrópusambandsins,“ segir Nicola Sturgeon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×