Viðskipti innlent

Félag Sigurðar Bolla á 9,9 prósent í Kviku eftir kaup á hlut TM í bankanum

Hörður Ægisson skrifar
 Á árinu 2016 nam hagnaður Kviku um tveimur milljörðum og arðsemi eigin fjár var 34,7 prósent.
Á árinu 2016 nam hagnaður Kviku um tveimur milljörðum og arðsemi eigin fjár var 34,7 prósent. Vísir/GVA
Félag í meirihlutaeigu Sigurðar Bollasonar fjárfestis hefur keypt tæplega þriggja prósenta hlut í Kviku banka af Tryggingamiðstöðinni (TM) og á eftir viðskiptin samtals 9,92 prósent í fjárfestingarbankanum. Gengið var frá kaupunum í síðustu viku en félagið RES II, sem er jafnframt að 30 prósenta hluta í eigu Gunnars Henriks B. Gunnarssonar, fjárfestis og eiganda gleraugnaverslunarinnar Prooptik, er nú næststærsti hluthafi Kviku á eftir tryggingafélaginu VÍS sem á um 25 prósenta hlut í bankanum.

Eignarhlutur TM, sem átti 3,6 prósenta hlut í Kviku fyrir söluna, er núna tæplega 0,7 prósent en félagið var áður í hópi stærstu hluthafa bankans.

Kaup RES II á stærstum hluta bréfa TM í Kviku koma í kjölfar þess að félagið tók yfir fyrr í þessum mánuði sjö prósenta hlut fjárfestingarfélagsins Grandier sem var í jafnri eigu Sigurðar og Dons McCarthy, fyrrverandi stjórnarformanns House of Fraser. Gunnar kom þá nýr inn í hluthafahóp Kviku samhliða því að kaupa hluta af bréfum McCarthys en hann hefur dregið úr fjárfestingum sínum á Íslandi vegna veikinda sem hann hefur glímt við. Auk þess að vera hluthafi í Kviku á Gunnar, ásamt eiginkonu sinni Lovísu Ólafsdóttur, meðal annars 9,5 prósenta hlut í verðbréfafyrirtækinu ALM Verðbréf.

Sigurður Bollason kom fyrst inn í eigendahóp Kviku í lok nóvember í fyrra þegar félagið Grandier eignaðist sjö prósenta hlutinn í bankanum. Á sama tíma og Sigurður og McCarthy komu inn í hluthafahóp bankans fyrir um sjö mánuðum keyptu hjónin Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Örn Þórðarson, fyrrverandi aðaleigendur Skeljungs, átta prósenta hlut í Kviku í gegnum félagið K2B fjárfestingar. Þau eiga sömuleiðis um átta prósent í VÍS og er Svanhildur Nanna stjórnarformaður félagsins.

Sigurður Bollason á 70 prósenta hlut í RES II en félagið er núna næst stærsti hluthafi Kviku banka.
Tilkynnt var um það í síðustu viku að stjórn Kviku hefði gert kauptilboð í allt hlutafé Virðingar sem gildir til 30. júní næstkomandi. Kaupverðið samkvæmt tilboðinu nemur 2.560 milljónum og verður greitt með reiðufé. Á árinu 2016 nam hagnaður Kviku um tveimur milljörðum og arðsemi eigin fjár var 34,7 prósent. Þá var hagnaður bankans eftir skatta á fyrsta fjórðungi þessa árs tæplega 400 milljónir, sem var talsvert umfram áætlun. Eigið fé Kviku í lok mars nam tæplega 7,5 milljörðum króna. 

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×