Viðskipti innlent

Gamma má áfram nota nafnið Gamma

Haraldur Guðmundsson skrifar
Valdimar Ármann er forstjóri Gamma Capital Management á Íslandi.
Valdimar Ármann er forstjóri Gamma Capital Management á Íslandi.
Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði síðasta föstudag frá kröfu fasteignafélagsins Gamma ehf. um að fjármálafyrirtækinu Gamma Capital Management yrði bannað að nota heitið Gamma í fasteignaviðskiptum. Einkaleyfisskráning Gamma ehf. á sviðum viðskiptaráðgjafar, rekstrarstjórnunar og skipulagsráðgjafar var þá ógilt.

Héraðsdómur féllst aftur á móti ekki á kröfu Gamma Capital Management um að ógilt yrði vörumerkjaskráning Gamma ehf. á sviði fasteignaþjónustu. Fjármálafyrirtækinu er því óheimilt að nota nafnið eða tákn sem eru lík vörumerki fasteignafélagsins í slíkri atvinnustarfsemi.

Gamma Capital Management stefndi Gamma ehf. og krafðist þess að vörumerkjaskráningin yrði ógilt. Fasteignafélagið gagnstefndi fjármálafyrirtækinu og krafðist þess að því yrði bannað að nota heitið Gamma í atvinnustarfsemi sinni þegar kæmi að umsjón með íbúðarhúsnæði, leigu þess og öðrum fasteignaviðskiptum. Héraðsdómur taldi ekki sannað að Gamma Capital Management hefði notað vörumerkið til slíkra viðskipta. Gamma Capital Management á og rekur Almenna leigufélagið, annað stærsta leigufélag landsins á almennum markaði, en Gamma ehf. á og leigir út fasteignir í miðbæ Reykjavíkur.

Markaðurinn fjallaði um deiluna um miðjan janúar síðastliðinn og sagði Magnús Stephensen, stjórnarmaður og einn eigenda Gamma ehf., þá að nafnið Gamma væri búið að vera í fjölskyldu hans síðan 1969 þegar faðir hans rak samnefnt fyrirtæki. Samkvæmt dómi héraðsdóms fór félag hans fyrst fram á að nafni Gamma Capital Management, sem hét áður GAM Management, yrði breytt í ágúst 2009.

Gamma ehf. er í eigu Magnúsar og Hannesar Hilmarssonar, forstjóra flugfélagsins Atlanta. Firmaheiti félagsins var skráð árið 2005. Gamma Capital Management er öllu umsvifameira fjármálafyrirtæki, með yfir 115 milljarða króna í stýringu, og stofnað árið 2008. 

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×