Fótbolti

„Við æfðum og æfðum og æfðum vítspyrnur“

Nathan Redmond eftir að spyrna hans var varin.
Nathan Redmond eftir að spyrna hans var varin. Vísir/Getty
England er úr leik á Evrópumóti U-21 liða eftir tap fyrir Þýskalandi í undanúrslitum í gær. Úrslit leiksins réðust í vítaspyrnukeppni.

Leiknum lauk með 2-2 jafntefli en vítaspyrnukeppninni með 4-3 sigri Þýskalands. Spyrnur þeirra Tammy Abraham og Nathan Redmond voru báðar varðar.

„Við æfðum og æfðum og æfðum vítaspyrnur,“ sagði landsliðsþjálfarinn Aidy Boothroyd í samtali við BBC í gærkvöldi.

Ófarir A-landsliðs Englands í vítaspyrnukeppnum eru vel þekktar en liðið hefur tapað sex af sjö vítaspyrnukeppnum sínum á stórmótum - þar af tvívegis gegn Þýskalandi, á HM 1990 og EM 1996.

Þess má einnig geta að fyrr í sumar tapaði England fyrir Spáni í vítaspyrnukeppni á EM U-17 liða.

„Ég veit ekki hver ástæðan er. Við grandskoðuðum allar hliðar á vítaspyrnum en það sem gerðist er að markvörðurinn þeirra varði frá mönnum sem skora venjulega með augun lokuð.“

Þrátt fyrir tapið í gær mega Englendingar vera sáttir við árangur yngri landsliða sinna í sumar. U-20 lið Englands varð heimsmeistari og U-17 liðið komst í úrslitaleik EM.


Tengdar fréttir

Þýskaland vann England eftir vítaspyrnukeppni

Þetta hefur gerst áður. Já, Þýskaland lagði England í vítakeppni til þess að komast í úrslitaleik EM-liða 21 árs og yngri. Englendingar gráta enn eina ferðina eftir rimmu gegn þeim þýsku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×