Innlent

Mæta ekki lágmarksskilyrðum í baráttu gegn mansali

Samúel Karl Ólason skrifar
Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna segir að konur frá austurhluta Evrópu, Eystrasaltsríkjunum og Suður-Ameríku séu neyddar í kynlífsþrælkun hér á landi.
Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna segir að konur frá austurhluta Evrópu, Eystrasaltsríkjunum og Suður-Ameríku séu neyddar í kynlífsþrælkun hér á landi. Vísir/Getty
Ríkisstjórn Íslands mætir ekki þeim lágmarksskilyrðum sem þarf til að berjast gegn mansali hér á landi. Engir hafa verið sakfelldir fyrir mansal, né ákærðir á síðustu sex árum. Þrátt fyrir tilraunir Íslendinga til þess að ná áðurnefndum lágmarksskilyrðum hefur það ekki tekst.

Þetta kemur fram í árlegri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um mansal á heimsvísu. Ráðuneytið hefur fært Ísland niður um flokk um baráttu ríkja gegn mansali. Fyrst var sagt frá skýrslunni á vef Ríkisútvarpsins. Fjallað er sérstaklega um Ísland á síðu 203 í skýrslunni.

Ráðuneytið leggur meðal annars til að meira verði lagt í að bera kennsla á, ákæra og dæma gerendur mansals. Að byggja upp traust á milli þolenda og lögreglu og auka þjálfun í að bera kennsl á mansal. Þar að auki er lagt til að ríkið byggi skýli fyrir menn og börn sem eru fórnarlömb mansals og að þjálfun í öflun sönnunargagna í málum sem varða mansal verði aukin svo reiða þurfi minna á vitnisburði.

Tekið er fram að lögreglan hafi rannsakað 16 mál sem sneru að mansali í fyrra og þau hafi verið 23 árið 2015. Hins vegar hafi enginn verið ákærður né dæmdur frá árinu 2010.

Þá segir í skýrslunni að Ísland sé og hafi verið áfanga- og viðkomustaður fórnarlamba mansals, undanfarin fimm ár. Þar sé bæði um að ræða konur í kynlífsþrælkun og fólk í vinnuþrælkun. Konur frá austurhluta Evrópu, Eystrasaltsríkjunum og Suður-Ameríku séu neyddar í kynlífsþrælkun og að menn og konur frá sömu heimshlutum plús Austur-Asíu séu neydd til að vinna við byggingavinnu, ferðamannaþjónustu og á veitingahúsum.

Gerendur mansals eru sagðir nota aðild Íslands að Schengen-sáttmálanum til þess að flytja fólk hingað í allt að þrjá mánuði og flytja svo fólkið aftur úr landi áður en nauðsynlegt sé að skrá þau.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×