Erlent

ESB framlengir viðskiptaþvinganir gegn Rússum

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, á fréttamannafundi um helgina.
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, á fréttamannafundi um helgina. Vísir/AFP
Aðildarríki Evrópusambandsins framlengdu í dag formlega viðskiptaþvinganir sínar gegn Rússum um hálft ár.

Viðskiptaþvingununum var komið á sumarið 2014 vegna aðkomu rússneskra stjórnvalda að stríðinu í austurhluta Úkraínu. Viðskiptaþvinganirnar verða því í gildi til janúar á næsta ári hið minnsta.

Þvinganirnir ná meðal annars til fjölda rússneskra banka í ríkiseigu, orkufyrirtækja og vopnaframleiðanda og setja hömlur á möguleika þeirra að sækja lánsfé til Evrópu. Þá fela þvinganirnar einnig í sér innflutnings- og útflutningsbann á vopnum og vara sem notaðar eru í olíuiðnaði og hernaði.

Leiðtogar ESB-ríkja samþykktu framlenginguna á leiðtogafundinum í síðustu viku með vísun í að ekki hafi verið farið að ákvæðum Minsk-sáttmálans sem ætlað er að koma á friði í austurhluta Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×