Erlent

Páfi skipar fyrsta kardinálann frá Norðurlöndum

Atli Ísleifsson skrifar
Anders Arborelius og Frans pafi í Svíþjóð á síðasta ári.
Anders Arborelius og Frans pafi í Svíþjóð á síðasta ári. Vísir/AFP
Frans páfi skipar í dag Anders Arborelius, biskup kaþólsku kirkjunnar í Svíþjóð, í embætti kardinála. Hinn 68 ára Arborelius er fyrsti maðurinn frá Norðurlöndum sem er skipaður kardináli, en auk Svíans bætast fjórir til viðbótar í hópinn.

Athöfnin hefst í Péturskirkjunni í Páfagarði í Róm klukkan 14 að íslenskum tíma þar sem farið er eftir eldgömlum siðum. Mikilvægasti liður athafnarinnar er þegar nýir kardinálar fá rauða kardinálahatta sína.

Mikilvægasta hlutverk kardinálanna 226 er að skipa nýjan páfa, en fjölmargir þeirra hafa einnig öðrum hlutverkum að gegna innan stjórnkerfis Páfagarðs.

121 kardinálanna eru nú yngri en áttatíu ára og það eru þeir sem hafa það hlutverk að velja nýjan páfa.

Arborelius fæddist árið 1949 í Sviss en ólst upp í Lundi í Svíþjóð. Hann var vígður prestur innan kaþólsku kirkjunnar árið 1979 og tók við embætti biskups kaþólsku kirkjunnar í Svíþjóð árið 1998.

Auk Anders Aborelius verða þeir Jean Zerbo frá Malí, Juan José Omella frá Spáni, Louis-Marie Ling frá Laos og Gregorio Rosa Chávez frá El Saldavor skipaðir nýir kardinálar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×