Innlent

Verkefnum hálendisvaktarinnar fer hlutfallslega fækkandi

Gissur Sigurðsson skrifar
Hálendisvaktin starfar nú tólfta árið í röð.
Hálendisvaktin starfar nú tólfta árið í röð. Slysavarnarfélagið Landsbjörg
Slysum og óhöppum á hálendinu fer hlutfallslega fækkandi með tilliti til fjölgunar ferðamanna. Fyrsti hópur björgnarsveitarmanna á vegum Landsbjargar er kominn á Fjallabaksleið, en fjórir hópar munu sinna hálendisvakt samtakanna í sumar, tólfta árið í röð.

Og verkefnin láta ekki á sér standa, að sögn Jónasar Guðmundssonar framkvæmdastjóra Landsbjargar.

„Það hafa strax verið einhver veikindi og svo þetta týpíska, fastir bílar í ám.“

Hefur einhver verið hætt kominn?

„Nei, ekki beint en það var þó eitt útkall þar sem einstaklingur fór í krampa. Það er alltaf óljóst hvernig það fer en það endaði vel,“ segir Jónas.

Hvernig brugðust þið við því?

„Það var farið til viðkomandi og svo var það metið þannig að hann var fluttur í sjúkrabíl sem kom á móti okkur.“

Hálendishóparnir verða á þremur stöðum, það er á Fjallabaki, Sprengisandi og á svæðinu norðan Vatnajökuls. Á Fjallabaki verða tveir hópar þar sem þar er mesta fjölmennið og langflest verkefnin. Að sögn Jónasar liggja flest verkefnin í föstum bílum í ám og minniháttar áverkum, til dæmis þegar fólk dettur og tognar.

 

Jónas segir að verkefnum fari ekki fækkandi.

„Það leit út fyrir það 2014 og 2015 en svo fór þetta aftur upp 2016. Hlutfallslega fer þeim þó fækkandi en ekki í heildartölunni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×