Skoðun

Rekstrarniðurstaða sveitarfélaganna ekki verið betri síðan 2007

Rósa Júlía Steinþórsdóttir og Elvar Orri Hreinsson skrifar
Íslensk sveitarfélög eru 74 talsins og hefur þeim fækkað um meira en helming í kjölfar sameininga frá árinu 1990. Starfsemi sveitarfélaga er skipt í A- og B-hluta.

Undir A-hluta falla lögbundin verkefni ásamt öðrum tilfallandi verkefnum sem að hluta til eða öllu leyti eru fjármögnuð með skatttekjum. Dæmi um slík verkefni eru rekstur leikskóla og grunnskóla, staðbundin félagsþjónusta og málefni fatlaðra. Í B-hluta eru fyrirtæki/stofnanir sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu sveitarfélagsins, eða eru að meirihluta á ábyrgð þess og rekin sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar.

Fyrirtæki/stofnanir í B-hluta eru að mestu eða öllu leyti fjármagnaðar með þjónustugjöldum. Dæmi um fyrirtæki í B-hluta eru hafnarsjóður, vatnsveita, rafveita, hitaveita, fráveita og sorphirða.

Í nýútgefinni skýrslu okkar um sveitarfélögin [EOH1] kemur fram að tekjur A- og B-hluta starfsemi sveitarfélaga námu 371 ma.kr., og jukust um 8% á árinu 2016. Hefur tekjuvöxtur samstæðu sveitarfélaganna ekki verið eins hraður frá árinu 2007. Gjöld A- og B-hluta námu 326 mö.kr. og jukust um 0,2% á árinu 2016. Þar sem að tekjur jukust hlutfallslega meira (8%) en gjöld (0,2%) batnaði rekstrarniðurstaða samstæðunnar fyrir fjármagns- og óreglulega liði umtalsvert og hækkaði úr tæpum 18 mö.kr. í rúma 45 ma.kr., eða um 152%. Rekstrarreikningur sveitarfélaganna litaðist talsvert af hækkandi launakostnaði og lífeyrisskuldbindingum á árunum 2014 og 2015 vegna kjarasamninga og breyttra forsenda varðandi dánar- og lífslíkur. Á árinu 2016 hækkuðu laun og launatengd gjöld ásamt lífeyrisskuldbindingum minna. Veldur þetta, ásamt miklum tekjuvexti, því að rekstrarniðurstaða sveitarfélaganna fyrir fjármagns- og óreglulega liði batnar með fyrrgreindum hætti á árinu 2016.

Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta að teknu tilliti til fjármagns- og óreglulegra liða nam 46,4 mö.kr. á árinu 2016 og batnaði um 48,6 ma.kr. frá árinu 2015 þegar hún var -2 ma.kr. Skýringin felst m.a. í lægri fjármagnsgjöldum á árinu 2016 m.a. sökum lægri skuldsetningar og hagstæðara lánaumhverfis. Einnig jukust tekjur vegna óreglulegra liða umtalsvert á milli áranna.

 

Heildarskuldir sveitarfélaganna námu rúmum 569 mö.kr. á árinu 2016 og lækkuðu um 3,3% frá árinu 2015. Hafa sveitarfélögin lækkað langtímaskuldir sínar um rúma 174 ma.kr. frá því að þær stóðu hæst árið 2009. Góð rekstrarniðurstaða og lækkun skulda á árinu 2016 leiðir til þess að rúmlega 98% sveitarfélaga stóðu undir skuldsetningu ársins 2016 þegar horft er til A- og B-hluta, sem er betri niðurstaða en á árinu 2015 þegar hlutfallið nam 90%. Jafnmörg sveitarfélög stóðu undir skuldsetningu ársins 2016 þegar A-hluti er skoðaður, eða rúmlega 98%. Er það talsvert betri niðurstaða en á árinu 2015 þegar hlutfallið nam 77%.

Það er ánægjulegt að sjá jákvæða rekstrarniðurstöðu sveitarfélaganna fyrir árið 2016. Lægri skuldsetning og hagfelldari rekstrarniðurstaða veldur því að flest öll sveitarfélög standa vel undir núverandi skuldsetningu. Þá skapar lægri skuldsetning og jákvæð rekstrarniðurstaða einnig svigrúm fyrir frekari innviðafjárfestingu og þar með aukna þjónustu við íbúa sveitarfélaganna.

Elvar Orri Hreinsson er sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka og Rósa Júlía Steinþórsdóttir er viðskiptastjóri sveitarfélaga hjá fyrirtækjum og fjárfestum  


Tengdar fréttir

Ættarnöfn eru annað mál

Algeng eftirnöfn eins og t.d. Hallgrímsdóttir og Sigfús­son eru yfirleitt ekki fýsileg rímorð í skáldskap og eru þar sjaldgæf eftir því. Innlend og erlend ættarnöfn eru annað mál.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×