Lífið

Furðuverur heilsa upp á börnin

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Viðey er notalegur staður til að njóta útivistar og leikja.
Viðey er notalegur staður til að njóta útivistar og leikja.
Árlegur barnadagur verður haldinn í Viðey á sunnudaginn frá klukkan 13 til 16. Eins og nafnið bendir til er hann helgaður börnum og fjölskyldum þeirra enda er Viðey með sín fallegu tún og forvitnilegu fjörur kjörinn staður til að njóta ævintýra. Útileikirnir verða á sínum stað og fólki er bent á að hafa með sér háfa og fötur fyrir rannsóknarleiðangur í fjöruna.

Sirkus Íslands skemmtir börnunum með kúnstum, furðuverur heilsa upp á krakkana í eyjunni og Húlladúllan kennir þeim listina að húlla. Arnbjörg Kristín jógakennari verður líka á staðnum með fjölskyldujóga og slökun.

Hægt verður að kaupa grillaðar pylsur við Viðeyjarstofu allan daginn og ókeypis ís verður í boði á meðan birgðir endast. Einnig geta krakkar spreytt sig á því að poppa yfir opnum eldi.

Ferjurnar fara frá Skarfabakka yfir sundið samkvæmt áætlun, eða eftir þörfum. Oft myndast langar biðraðir í ferjuna og því er nauðsynlegt að mæta tímanlega til að ná fyrsta atriði dagsins. Hægt er að kaupa miða í ferjuna daginn áður í miðasölu Eldingar á Skarfabakka í Sundahöfn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×