Erlent

Rústir al-Nuri moskunnar á valdi írakskra hersveita

Samúel Karl Ólason skrifar
Sérsveitarmenn að störfum í Mosul.
Sérsveitarmenn að störfum í Mosul. Vísir/AFP
Stjórnarher Íraks hefur náð tökum á rústum al-Nuri moskunnar í MosulAbu Bakr al-Baghdadi lýsti yfir stofnun kalífadæmis Íslamska ríkisins þar árið 2014, en vígamenn moskunnar sprengdu hana í loft upp fyrr í mánuðinum, í stað þess að missa hana í hendur hersins. Um mikinn táknrænan sigur er að ræða.

Sérsveitarmenn réðust til atlögu gegn vígamönnunum við sólarupprás.

Íslamska ríkið stjórnar enn litlu svæði við moskuna í elsta hluta Mosul. Yfirvöld í Írak búast við því að orrustunni um borgina verði lokið á næstu dögum. AP fréttaveitan segir ISIS-liða stjórna um tveimur ferkílómetrum í borginni.

Mosul hefur verið helsta vígi ISIS frá því samtökin hertóku borgina sumarið 2014. Samtökin hafa tapað stærstum hluta yfirráðasvæðis síns í Írak og eru á undanhaldi víða í Sýrlandi.

Bandalag sýrlenskra Kúrda og Araba herjar á ISIS í Raqqa í Sýrlandi, með miklum árangri.

Orrustan um Mosul hefur staðið yfir í marga mánuði og hafa fregnir borist af töluverðu mannfalli meðal almennra borgara. Þá þykir ljóst að vígamenn ISIS hafa skýlt sér á bak við borgara til að forðast loftárásir. Þá hafa vígamennirnir komið gildrum og sprengjum fyrir víða, sem hefur gert sóknina gegn þeim erfiða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×