Innlent

Fleiri íslenskir ríkisborgarar fluttu frá landinu en til þess

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Landsmönnum fjölgaði milli ára en þó voru fleiri íslenskir ríkisborgarar sem fluttu frá landinu en til þess.
Landsmönnum fjölgaði milli ára en þó voru fleiri íslenskir ríkisborgarar sem fluttu frá landinu en til þess. Vísir/Anton Brink
Landsmönnum fjölgaði um 1,8 prósent í fyrra frá því sem var árið áður en þann 1. janúar síðastliðinn var íbúafjöldi á Íslandi 338.349. Eru það 5.820 fleiri einstaklingar en á sama tíma árið 2016. Þá voru brottfluttir íslenskir ríkisborgarar umfram aðflutta 146 talsins í fyrra.  

Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands en þar kemur fram að árið 2016 hafi fæðst 4.034 börn á Íslandi en 2.309 manns létust. Fæddir umfram dána voru þar af leiðandi 1.725 talsins.

„Þá fluttust 6.889 utan en 10.958 til landsins. Aðfluttir umfram brottflutta voru því 4.069 árið 2016, 2.899 karlar og 1.170 konur. Brottfluttir íslenskir ríkisborgarar umfram aðflutta voru 146 árið 2016.

Í upphafi árs 2016 var 60 þéttbýlisstaður á landinu með 200 íbúa eða fleiri. Auk þeirra voru 36 smærri byggðakjarnar með 50–199 íbúa. Alls bjuggu 316.904 í þéttbýli 1. janúar síðastliðinn og hafði þá fjölgað um 5.054 frá sama tíma ári fyrr. Í dreifbýli og smærri byggðakjörnum bjuggu alls 21.455,“ segir á vef Hagstofunnar.

Þá kemur jafnframt fram að fjölmennasta sveitarfélagið hafi verið Reykjavík með 123.246 íbúa en það fámennasta var Árneshreppur með 46 íbúa.

Erlendir ríkisborgarar voru síðan 30.275 þann 1. janúar 2017 og voru Pólverjar langfjölmennastir.

„Alls höfðu 13.795 einstaklingar pólskt ríkisfang eða 45,6% allra erlendra ríkisborgara. Alls voru 46.516 landsmanna árið 2016 fæddir erlendis (23.830 karlar og 22.686 konur) eða 13,7% mannfjöldans, fleiri en nokkru sinni.“

Nánar má lesa um málið hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×