Erlent

Ferðabann Trump gegn múslimalöndum tekur gildi

Kjartan Kjartansson skrifar
Ekki er útlit fyrir að ferðabannið hafi mikil áhrif á flugferðir til Bandaríkjanna líkt og gerðist þegar ferðabanninu var fyrst komið á.
Ekki er útlit fyrir að ferðabannið hafi mikil áhrif á flugferðir til Bandaríkjanna líkt og gerðist þegar ferðabanninu var fyrst komið á. Vísir/AFP
Umdeilt ferðabann Donalds Trump Bandaríkjaforseta sem er beint gegn íbúum sex múslimalanda og öllum flóttamönnum tekur gildi að hluta til á miðnætti að íslenskum tíma.

Samkvæmt nýju reglunum kemst fólk frá Íran, Líbíu, Sýrlandi, Sómalíu, Súdan og Jemen ekki til Bandaríkjanna nema að það hafi „náin tengsl“ við bandaríska ríkisborgara næstu níutíu dagana.

Náin tengsl teljast vera ef fólk á foreldra, maka, börn, tengdabörn eða systkini í Bandaríkjunum. Önnur fjölskyldutengsl uppfylla ekki skilyrði ferðabannsins.

Mega ekki banna þeim sem hafa raunveruleg tengsl við landið að koma

Þeir sem hafa viðskiptatengsl eða stunda nám í Bandaríkjunum fá einnig inngöngu í landið samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Bannið nær ekki til þeirra sem eru þegar með gilda vegabréfsáritun til Bandaríkjanna eða eru með tvöfaldan ríkisborgararétt.

Flóttamenn sem ekki hafa þessi tengsl við Bandaríkin verður meinað að koma til Bandaríkjana næstu 120 dagana.

Hæstiréttur Bandaríkjanna felldi lögbann á ferðabann Trump úr gildi að hluta til á mánudag. Hann ætlar að úrskurða um lögmæti þess í heild í október.

Í millitíðinni kvað dómurinn upp úr um að ekki mætti beita banninu gegn erlendum borgurum sem gætu fært sannfærandi rök fyrir að þeir hefðu raunveruleg tengsl við fólk eða stofnanir í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir

Hluti ferðabanns Trump tekur gildi

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur numið lögbann á hluta svokallaðs ferðabanns Donald Trump Bandaríkjanna úr gildi.

Ferðabann Trumps ekki samþykkt

Áfrýjunardómstóll í Bandaríkjunum hefur ákveðið að tilskipun Trumps um ferðabann sem meinar íbúum sex múslimalanda inngöngu inn í Bandaríkin, muni ekki taka gildi. Með því staðfestir dómstólinn ákvörðun neðra dómstigs í Maryland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×