Innlent

Fengu dekk af sjúkrabíl í fangið: „Einstaka tilviljun að þarna skyldi ekki verða dauðaslys“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sendibíll Sigurðar, sem sést til vinstri á mynd, er illa útleikinn eftir dekkið. Til hægri sést sjúkrabíll á Akureyri, málinu ótengdur.
Sendibíll Sigurðar, sem sést til vinstri á mynd, er illa útleikinn eftir dekkið. Til hægri sést sjúkrabíll á Akureyri, málinu ótengdur. Aðsent/Vísir/Pjetur
Dekk losnaði undan sjúkrabíl sem var á leið frá Hvolsvelli og á Selfoss snemma í morgun. Dekkið lenti framan á sendibíl, sem kom úr gagnstæðri átt, en farþegi bílsins segir ótrúlega mildi að ekki hafi farið verr. Yfirmaður sjúkraflutninga á Suðurlandi segir málið „gríðarlega skrýtið“ en nú tekur við ítarleg skoðun á ástandi sjúkrabílsins og tildrögum atviksins.

Sigurður Björgvinsson keyrði sendibílinn sem varð fyrir dekkinu. Hann var á leiðinni austur á land skömmu fyrir klukkan 7 í morgun en sjúkrabíllinn kom þá keyrandi á móti honum í vesturátt. Í samtali við Vísi segir Sigurður báða bílana hafa verið á um 90 kílómetra hraða.

„Í þann mund sem við erum að mætast þá flýgur drekk undan sjúkrabílnum. Við náðum að bjarga okkur fyrir horn, dekkið flaug hátt í loft upp og lenti beint framan á bílnum og skemmdi hann. Bíllinn er núna óökufær."

Ótrúleg mildi að ekki fór verr

Sigurður segir engan hafa slasast alvarlega í slysinu en mögulega hafi farþegar, sem voru tveir í sendibílnum, tognað.

„Menn urðu náttúrulega alveg pinnstífir og hentust til í beltunum.“

Sjúkraflutningakonan sem keyrði sjúkrabílinn missti sem betur fer ekki stjórn á honum. Að sögn Sigurðar náði hún að stöðva bílinn og forðaði þar með báðum farartækjum frá þungum árekstri.

„Við þökkum öll fyrir það að við skulum vera á lífi,“ segir Sigurður.

Þá segir hann mikilvægt að atvikið verði viðeigandi aðilum víti til varnaðar og vonar að ástand bílsins og tildrög slyssins verði rannsökuð.

„Málið snýst auðvitað um það, af því að þetta er nú opinber bíll, hvers konar viðhald þessir sjúkrabílar fá. Hvernig getur svona gerst? Það var einstaka tilviljun að þarna skyldi ekki verða dauðaslys.“

„Gríðarlega skrýtið mál“

Í samtali við Vísi segir Styrmir Sigurðsson, yfirmaður sjúkraflutninga á Suðurlandi, að atvikið sé mjög óvenjulegt. Hann segir mikið eftirlit haft með öllum bílum á vegum heilbrigðisstofnunarinnar og að farið sé eftir ákveðinni rútínu í þeim efnum.

„Við förum eftir ákveðnu plani varðandi viðhald á bílunum. Meðal annars athugum við alltaf loftþrýsting í dekkjum og herslur á felguboltum á bílunum. Þetta er bara gríðarlega skrýtið mál og við erum að athuga hvort nýlega hafi sprungið á bílnum eða eitthvað slíkt.“

Styrmir veit aðeins til þess að einu sinni áður hafi dekk losnað undan sjúkrabíl á ferð í umdæmi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Hann segist þó fyrst og fremst þakka fyrir að engin slys hafi orðið á fólki.

„Það er mikil mildi að ekki hafi farið verr og sem betur fer valt ekki sjúkrabíllinn. Sem betur fer hlutust ekki slys af þessu og við endurskoðum að sjálfsögðu okkar eftirlitskerfi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×