Innlent

Ellert einstaki býr til folöld

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar

Mikil spenna er hjá hestamönnum að sjá hvernig folöld Ellerts einstaka verða á litinn en Ellert er fjögurra vetra stóðhestur sem ber nýtt liftaafbrigði í íslenska hrossastofninum. Ellert einstaki er nú í fyrsta skipti hjá stóðmerum í Landeyjum.

Ellert einstaki var spenntur þegar honum var hleypt út úr hestakerrunni í Lindartúni í Vestur-Landeyjum enda vissi hann að það væri eitthvað spennandi í gangi. Hesturinn er frá Baldurshaga og eini hesturinn í heiminum sem ber þennan lit sem kallast ýruskjótt. Hann er með bleikálóttan grunn, fæturnir og kviðurinn hvítur. Bakið er dökklitt, en síðurnar yrjóttar eins og hálsinn. Auk þess er hann með stóra og mikla blesu og stórt og mikið vagl í báðum augum.

„Nú er hann að stíga sín fyrstu skref í þessum bransa og ætlar að reyna að búa til fleiri eintök af þessum nýja lit,“ segir Baldur Eiðsson eigandi Ellerts einstaka.

Ellert var frelsinu feginn þegar Baldur losaði múlinn af honum, enda tók hann strax sprettinn til meranna sem biðu hans. Ellert er í fyrsta skipti í stóðmerum, mikill eltingaleikur er í stóði sem þessu enda vill graðhesturinn hafa merarnar í einum hópi.

En hvernig lit mun ellert gefa?

„Það segjum við ekkert um fyrr en við sjáum folöldin því þessi litur eða literfðir hafa ekki verið til í neinum hesti hingað til. Þannig að við vitum ekkert. Þetta er alveg gífurlega áhugavert og skemmtilegt fyrirbæri. Að við skyldum fá þennan hest upp og við skyldum fá hann hér á landi en ekki einhvers staðar í útlöndum og að hann skuli vera hér og verða hér og setja þau spor sem hann getur á íslenska hestastofnin. Hver sem þau verða, við vitum það ekki en það er spennandi að sjá,“ segir Páll Imsland, litasérfræðingur íslenska hestsins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.