Skoðun

Minna fúsk?

Birgir Hermannsson skrifar
Minna fúsk, meiri Björt framtíð! var slagorð Bjartrar framtíðar í síðustu kosningabaráttu. Þetta snjalla slagorð rifjaðist upp fyrir mér þegar þingmenn greiddu atkvæði um dómara í Landsrétti. Núverandi kerfi stöðuveitinga í dómskerfinu var komið á til að binda hendur ráðherra, tryggja sjálfstæði dómsvaldsins og auka traust. Af hverju stóðu þingmenn ekki vörð um þetta kerfi? Í nágrannalöndum okkar eru ekki eilífar deilur um skipan dómara og ekki sama vandamál með skort á trausti. Gildir það jafnt um þjóðþing og dómskerfi. Framganga dómsmálaráðherra og meirihluta Alþingis í málefnum Landsréttar mun því miður minnka traust og skapa tortryggni. Hér þurfti ráðherra einfaldlega að vanda sig meira og skapa sátt um málið.

Ekki veit ég hvort þingmenn Bjartrar framtíðar felldu tár líkt og á Kópavogsfundi forðum, þegar þeir sögðu já við tillögu dómsmálaráðherra um skipan Landsréttar. Í það minnsta ættu þeir að fella tár nú, enda framtíðin ekki björt sem stendur. Atkvæðagreiðslur geta skilgreint flokka, líkt og kom í ljós með eftirminnilegum hætti í atkvæðagreiðslu um búvörusamninga fyrir síðustu kosningar. Nú hefur Björt framtíð skilgreint sig að nýju: meira fúsk, minni Björt framtíð! Björt framtíð var stofnuð af Guðmundi Steingrímssyni til að breyta stjórnmálunum. Hvað hefur orðið af því markmiði? Björt framtíð er einnig með sínum hætti arftaki Besta flokksins í íslenskum stjórnmálum. Í ljósi atkvæðagreiðslunnar um Landsrétt er það, eins og Jón Gnarr myndi kannski segja, súrrealískt.

Framganga Viðreisnar í málinu kemur kannski ekki á óvart, þó vissulega sé hún vonbrigði. Ráðherrar flokksins eru allt góðir og gegnir Sjálfstæðismenn. Atkvæðagreiðslan gæti orðið Viðreisn skeinuhætt. Margir flokksmenn og kjósendur höfðu vonast eftir frjálslyndum miðjuflokki að evrópskri fyrirmynd, en sitja uppi með Sjálfstæðisflokkinn þversum, og jafnvel ekki svo þversum þegar upp er staðið. Atkvæðagreiðslan um skipan Landsréttar mun fylgja Viðreisn eins og skugginn, jafnvel sem draugur sem ásækir flokkinn reglubundið.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×