Viðskipti innlent

Costco lækkar olíuverð enn meira

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vísir/eyþór
Costco hefur lækkað verð á bensín og dísel á dælum sínum í Kauptúni í Garðabæ.

Dísellítrinn kostar nú 158,9 kr. og lítrinn af bensíni kostar 166,9 kr.

Við opnun verslunarinnar þann 23. maí kostaði lítrinn af dísel 164,9 kr. og af bensíni 169,9 kr.

Tveimur dögum eftir opnun verslunarinnar lækkaði Costco verðið á dísel niður í 161,9 krónur og hefur því lækkað verðið um þrjár krónur til viðbótar á rúmum tveimur vikum.

Sjá einnig: Titringur á eldsneytismarkaði vegna lágs verðs hjá Costco

Eins og fram kemur á bensinverd.is er algengt verð á dísel hjá öðrum bensínstöðvum á bilinu 175 til 181 kr. og bensínlítrinn er á 189 til 195 kr. Dælan og Orkan X bjóða þó lítrana á lægra verði; 167,5 kr. fyrir dísellítrann og 180,1 kr. fyrir bensínið, enda bjóða stöðvarnar ekki upp á nein afsláttarkjör eins og annars staðar þekkist.

Vert er að hafa í huga að aðildarkort Costco er nauðsynlegt til þess að versla við bensínstöðina í Kauptúni. Einstaklingsaðild kostar 4.800 kr. á ári. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×