Innlent

Uppnám í Costco-hópnum eftir verðkönnun RÚV

Jakob Bjarnar skrifar
Verðkönnun RÚV hefur vakið verulega athygli og reiði meðal þeirra sem vilja standa með Costco fram í rauðan dauðann.
Verðkönnun RÚV hefur vakið verulega athygli og reiði meðal þeirra sem vilja standa með Costco fram í rauðan dauðann.
Verulegt uppnám má greina Facebookhópnum „Keypt í Costco Ísl.- Myndir og verð.“ eftir að Ríkisútvarpið birti verðkönnun á vef sínum nú í morgun. Meginlínan í spjalli og fullyrðum fólks í hópnum er sú að um sé að ræða fullkomlega marklausa könnun, verið sé að bera saman epli og appelsínur og er RÚV sakað um að ganga erinda íslenskra stórkaupmanna.

Verðkönnun RÚV er kynnt undir yfirskriftinni „Bónus og Krónan ódýrari en Costco“. Einingaverð fjörutíu vörutegunda sem valdar eru í samráði við ASÍ var skoðað og er samkvæmt könnuninni samanlagt lægra í Bónus og Krónunni en Costco. Þá kemur fram að vöruúrvalið sé minna því 9 vörutegundir af þeim 49 sem til stóð að taka á verðpúlsinn voru ekki til. „Stærð pakkninga gerir það jafnframt að verkum að greiða þurfti rúmar 56 þúsund krónur fyrir körfuna í Costco en um 20 þúsund í Krónunni og Bónus.“

Þá kemur jafnframt fram að farið hafi verið í verslanirnar fimmtudaginn 8. júní milli klukkan 14 og 18 og ávallt valin ódýrasta varan, óháð gæðum, miðað við einingaverð vöru í hverjum vöruflokki, óháð vörumerki og stærð pakkninga.

„Borið er saman verð á hverja einingu, ýmist í kílóatali, lítratali eða stykkjatali. Fyrir eina einingu af hverri vörutegund á listanum hefði þurft að greiða 23.824 í Costco, sem var hæsta verðið, 21.404 í Bónus, sem var ódýrast, og 22.331 í Krónunni. Alls er því um 11% verðmunur á samanlögðu einingaverði í Bónus og Costco, lægsta og hæsta verðinu,“ segir í frétt RÚV, sem Sigríður Dögg Auðunsdóttir skrifar.

Epli og appelsínur

Ekki hefur farið fram hjá neinum að Costco hefur verið tekið opnum örmum á Íslandi og fer könnun RÚV vægast sagt öfugt ofan í þá sem eru virkir í Costco-hópnum. Og þeir finna könnuninni flest til foráttu. Og er fjölmargt nefnt til sögunnar sem talið er bogið við téða könnun. Margir þar telja að verið sé að bera saman epli og appelsínur.

Sólveig Bergland Fjólmundsdóttir er stofnandi hins vinsæla Costco-hóps sem hefur á skömmum tíma hefur orðið stærsti, virkasti og vinsælasti spjallhópurinn á Facebook.
„Hér er mörg sorgleg bjögun og rangur samanburður. Þetta er eins kjánalegt og að bera saman verð á bílum á eftirfarandi hátt:  Bíll m/4 dekkjum Hekla kr. 3.9 milljónir Brimborg 2.8 milljónir - verðmunur 1.1 milljón. Ekki skoðuð gæði, notagildi eða neitt sem gerir könnunina trúanlega. RÚV - vandið ykkur betur !!,“ segir Hafsteinn Sævarsson.

Euroshopper-pappírinn klárast á núll einni

Fjölmargir eru Hafsteini hjartanlega sammála um þetta atriði. Ein þeirra er Eva Bergmann Gunnlaugsdóttir sem á bágt með að trúa því að WC-pappírinn sé ódýrari í Bónus. „Kannski Euroshopper pappírinn þar sem að rúllan klárast á núll einni en costco pappírinn er miklu betri og mikið meira magn á hverri rúllu. Sama með kjúklingabringurnar, þar er örugglega tekið mið af Bónus bringunum sem eru sykursprautaðar í drasl en Costco selur Holta bringur. Tekið ekki mikið mark á þessari könnun.“

Daníel Sigurðsson bendir á annað atriði sem fólk telur að skipti máli sem er að ... „verðkönnun gerð á degi þegar allar hillur voru tómar í costco og aðeins dýrasta tegundin af hverri vöru var óseld.... spurning um að endurtaka þetta á fimmtudag þegar búið er að fylla á búðina...“

Costco-áhrifin

Enn aðrir benda svo á hin svokölluðu Costco-áhrif, sem eru þau að allir þeir sem eru í samkeppni við Costco hafa reynt að mæta henni með lækkuðu vöruverði. Gaman hefði verið að sjá könnun á verði sem var áður en Costco kom og bera það saman við kaup og kjör í Costco.

Hörður Christians Sigurðsson er á þeirri skoðun: „Ha ha hvað skeði ? Náðust allt i einu hagstæðari samningar við heildsala ? Lækkaði flutningskostnaður? Eða var bara dreift brúnum umslögum eins og ofte áður?“

RÚV sakað um að ganga erinda moldríkra kaupmanna

Reyndar telur fólkið í Costco-hópnum, sem er afar hliðhollt Costco svo það sé sagt, fátt eitt standast í þessari samantekt Sigríðar Auðar. Og, RÚV er sakað um að ganga erinda stórkaupmanna.

Heiðrún Arna er ein þeirra sem telur það blasa við: „Greyið klíkuskapurinn í fjölmiðlum er að reyna bjarga vinum sínum sem eru nú þegar moldríkir á okkur eftir endalausa græðgi gegnum bónus og krónunna :) sorglegt að sjá þá reyna skapa múgæsing með illa gerðum verðkönnunum og halda að íslendingar hlaupi beint inn í okrið aftur....“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×