Innlent

Útlit fyrir regnhlífaveður á 17. júní

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Rigning er í kortunum á 17. júní á laugardaginn.
Rigning er í kortunum á 17. júní á laugardaginn. Vísir/Daníel
Útlit er fyrir einhverja rigningu á öllu landinu á þjóðhátíðardaginn sem haldinn verður hátíðlegur næstkomandi laugardag. Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands hvetur gesti hátíðahalda á 17. júní til að hafa regnhlífar meðferðis en vel mun viðra til þess. Gestir tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice geta því einnig átt von á nokkurri vætu.

Árni Sigurðsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við Vísi að von sé á nokkurri rigningu um allt land á þjóðhátíðardaginn. Íbúar höfuðborgarsvæðisins, sem hyggja á hátíðahöld niðri í miðborg á laugardaginn, eru því hvattir til þess að hafa með sér regnhlífar.

„Það er hægur vindur, suðlæg átt, og rigning með köflum. Ég held þetta gæti orðið ágætis veður fyrir regnhlífar,“ segir Árni.

Rigningin verður þyngst sunnan og vestan lands en íbúar annarra landshluta gætu átt von á henni með kvöldinu. Þá verður hiti um og yfir 10 gráður á öllu landinu.

Von á ágætu, en mögulega blautu, veðri á Secret Solstice

Tónlistarhátíðin Secret Solstice hefst á fimmtudaginn og stendur fram á sunnudag. Áætlað er að allt að 20.000 manns láti sjá sig á hátíðinni í Laugardalnum. Árni sér fram á að veður haldist að mestu leyti óbreytt allra næstu daga á höfuðborgarsvæðinu.

„Það verður ágætis veður á fimmtudag, nokkuð svipað og er akkúrat núna, en svo verður rigning með köflum um helgina.“

Það má því gera ráð fyrir að gestir Secret Solstice sjái hag sinn í því að klæða sig í regnjakka áður en haldið er á hátíðina á laugardag og sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×