Viðskipti innlent

Fjárfestingarfélag Finns Reyrs og Steinunnar hagnast um 2,4 milljarða

Hörður Ægisson skrifar
Fjárfestingarfélagið Snæból ehf., sem er í eigu hjónanna Finns Reyrs Stefánssonar og Steinunnar Jónsdóttur, hagnaðist um 2.423 milljónir króna eftir tekjuskatt á árinu 2016 borið saman við hagnað upp á ríflega 1.350 milljónir árið áður, að því er fram kemur í nýjum ársreikningi félagsins.

Meirihluti hagnaðarins kemur til vegna jákvæðrar afkomu af fjárfestingareignum upp á liðlega 1.425 milljónir króna og þá skiluðu dóttur- og hlutdeildarfélög Snæbóls einnig hagnaði upp á tæplega 850 milljónir. Eignir félagsins voru rúmlega 10 milljarðar í árslok 2016 og eigið fé þess um 8,8 milljarðar. Ekki verður greiddur arður til hluthafa vegna afkomu síðasta árs.

Finnur Reyr Stefánsson, fjárfestir.
Fjárfestingarfélag þeirra hjónanna er á meðal stærstu hluthafa í Sjóvá með 8,8 prósenta eignarhlut og þá átti það jafnframt um fimm prósenta hlut í lyfjafyrirtækinu Invent Farma sem var selt fyrir um 215 milljónir evra í fyrra.

Finnur og Steinunn hafa verið áberandi í íslensku viðskiptalífi undanfarin ár en í gegnum Snæból og fjárfestingarfélagið Sigla, sem þau eiga helmingshlut í, hafa þau meðal annars komið að fjárfestingum í Heimavöllum, Regin fasteignafélagi, Kviku banka og lúxushótelinu við Hörpu.

Þá á Finnur Reyr, ásamt viðskiptafélaga sínum Tómasi Kristjánssyni og öðrum fjárfestum, einnig rúmlega tveggja prósenta hlut í Icelandair Group í gegnum eignarhaldsfélagið Traðarhyrnu

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×