Innlent

Vilja koma upp hvalaathvarfi í Vestmannaeyjum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vestmannaeyjabær og fyrirtækið Merlin Entertainment kanna nú möguleikann á því að koma upp hvalaathvarfi í Vestmannaeyjum. Greint var frá þessu í kvöldfréttum Stöðvar 2 og í kjölfarið sendi Vestmannaeyjabær frá sér fréttatilkynningu vegna málsins. Þá var í desember síðastliðnum fjallað um málið í Fréttablaðinu.

Í fréttatilkynningu kemur fram að hugmyndin sé að flytja í hvalaathvarfi þrjá Belugahvali eða mjaldra sem hafa verið í skemmtigarði í Kína.

„Verkefnið er í senn risa skref í ferðaþjónustu fyrir okkur hér í Eyjum og dýravelferðarverkefni sem ekki á sinn líkan. Forsaga þessa máls er að fyrir nokkru keypti Merlin skemmtigarð í Shanghai í Kína þar sem fyrir voru mjaldrar. Merlin, sem á forsendum dýravelferðar er á móti því að hvalir og höfrungar séu teknir úr villtri náttúru sem sýningadýr, fór þá þegar að leita að heppilegri leið til að koma þessum sýningadýrum í ákjósanlegra umhverfi og höfðu fljótlega samaband við okkur hér í Eyjum,“ segir í tilkynningu frá Vestmannaeyjabæ en hana má sjá í heild sinni hér að neðan:

Eins og fram kom í kvöldfréttatíma Stöðvar 2 nú fyrir skömmu vinnur Vestmannaeyjabær nú með stórfyrirtækinu Merlin Entertainment að því að kanna möguleika á því að koma upp hvalaathvarfi í Vestmannaeyjum og flytja þangað 3 Belugahvali eða mjaldra sem verið hafa í skemmtigarði í Kína seinustu ár. Verkefnið er í senn risa skref í ferðaþjónustu fyrir okkur hér í Eyjum og dýravelferðarverkefni sem ekki á sinn líkan. Forsaga þessa máls er að fyrir nokkru keypti Merlin skemmtigarð í Shanghai í Kína þar sem fyrir voru mjaldrar.

Merlin, sem á forsendum dýravelferðar er á móti því að hvalir og höfrungar séu teknir úr villtri náttúru sem sýningadýr, fór þá þegar að leita að heppilegri leið til að koma þessum sýningadýrum í ákjósanlegra umhverfi og höfðu fljótlega samaband við okkur hér í Eyjum. Á sama tíma vorum við að leita að heppilegum alþjóðlegum samstarfsaðilum til að styðja við þá uppbyggingu sem hér er unnið að á vettvangi sjávarrannsókna, háskólastarfs og ferðaþjónustu.

Einn hluti af þessu verkefni hefur verið að leita leiða til að segja sögu þessara einstöku dýra, þessarar hvalategundar í heild og annarra staðbundinna sjávardýra. Öll nálgun að slíku hefur dýravelferð að leiðarljósi og sérstök áhersla lögð á að sýna eðlilegt atferli dýranna og búa þeim sem náttúrulegasta umhverfi. Þannig er saga þeirra sögð af virðingu fyrir dýrunum og þeirra stað í þeirri keðju sem náttúran er. Eitt af því sem er til skoðunar er að koma upp veglegri gestastofu með sædýrasafni á hafnarsvæðinu í Vestmannaeyjum þar sem bæði verða til sýnis lifandi fiskar, sögð saga mjaldranna auk þess sem reynt verður að koma upp athvarfi fyrir lundapysjur sem ekki geta lifað í villtri náttúrunni og ýmislegt fl.

Vestmannaeyjabær mun því í samstarfi við Merlin halda áfram að skoða fýsileika hvað þetta varðar og sérstök áhersla er að sjálfsögðu lögð á samvinnu við sjávarlíffræðinga, hvalasérfræðinga, aðila í ferðaþjónustu og fl. sérfróða aðila. Hingað til hefur verkefninu verið vel tekið af öllum þeim sem um það hafa fjallað en eftir sem áður er mikilvægt að hafa í huga að enn eru ljón í veginum og margt sem getur orðið til að hleypa keng í málið. Ekkert er því klappað í stein þótt sannarlega bindum við vonir við að vel gangi hér eftir sem hingað til. Við hjá Vestmannaeyjabæ erum afar stolt af því að þetta risafyrirtæki sem tók á móti 62 milljónum gesta í fyrra skuli velja okkur sem samstarfsaðila og lítum á þetta sem víðtækt tækifæri fyrir okkur bæði í þróun á þekkingarumhverfinu, háskólastarfinu, hafrannsókum og þá ekki síður sem enn eitt djásnið í þá kórunu sem ferðaþjónustan er hér í Eyjum.


Tengdar fréttir

Stefnir í nýtt Keiko-ævintýri

Hafinn er undirbúningur að komu þriggja mjaldra frá dýragarði í Sjanghæ til Vestmannaeyja. Breska fyrirtækið Merlin Entertainments, sem á dýrin og vill sleppa þeim út í náttúruna, fékk nýverið synjun frá Rússlandi um að sleppa þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×