Menning

Frá mínu sjónarhorni er landslag skúlptúr

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Daniel Gustav í Lystigarðinum á Akureyri.
Daniel Gustav í Lystigarðinum á Akureyri.

Fimm verk/Five Works nefnist sýning sem Þjóðverjinn Daniel Gustav Cramer opnar í Verksmiðjunni á Hjalteyri á 17. júní milli klukkan 14 og 18. Þar kynnir hann ólík verk sem hvert og eitt dregur upp mynd af ákveðnu landslagi.

„Frá mínu sjónarhorni er landslag skúlptúr og líka eitthvað sem geymir það sem við öll eigum sameiginlegt – stundum ógnvænlegt,“ segir Daniel. Hann nefnir Carrara og Lígúríu á Ítalíu, Katherine í norðanverðri Mið-Ástralíu og Troodos fjöllin á Kýpur.

Á sýningunni eru textaverk, kvikmynd, hljóðinnsetning og skúlptúrverk sem inniheldur 100 járnhluta sem dreifast frá Hjalteyri og til Akureyrar.

Daniel Gustav lærði myndlist við Royal College of Art í London og hefur sýnt víða um heim á liðnum árum, til dæmis í Sviss, Ekvador, Mónakó, Frakklandi, Portúgal og síðar á árinu sýnir hann í Bergen, Dubai og Düsseldorf.

Sýningin Fimm verk verður svo opin á þriðjudögum til sunnudaga frá klukkan 14 til 17 til 1. júlí.
Fleiri fréttir

Sjá meira