Viðskipti innlent

Ómar Özcan til Íslandsbanka

Hörður Ægisson skrifar
Höfuðstöðvar Íslandsbanka í Norðurturninum í Kópavogi.
Höfuðstöðvar Íslandsbanka í Norðurturninum í Kópavogi.
Ómar Özcan, sem hefur starfað hjá Íslenskum verðbréfum frá því í ársbyrjun 2016, hefur verið ráðinn sem sérfræðingur í verðbréfamiðlun Íslandsbanka, samkvæmt upplýsingum Markaðarins. 

Ómar hafði áður meðal annars starfað í eigin viðskiptum hjá Arion banka og á árunum 2009 til 2011 var hann í fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka og H.F. Verðbréfa.

Árin 2007 og 2008 starfaði hann hjá Straumi fjár­fest­inga­banka í eig­in viðskipt­um við fjár­fest­ing­ar í inn­lend­um sem og er­lend­um hluta­bréf­um ásamt því að halda ut­an­um viðskipta­vakt á inn­lend­um hluta­bréf­um. 

Ómar Özcan hafði starfað hjá Íslenskum verðbréfum frá því í mars 2016.
Með ráðningu Ómars er Íslandsbanki að bregðast við brotthvarfi Harðar Steinars Sigurjónssonar og Matei Manolesco en þeir hættu í verðbréfamiðlun bankans fyrir skemmstu.

Hörður Steinar réð sig til Landsbankans á meðan Matei, sem hafði aðeins starfað hjá Íslandsbanka í um þrjá mánuði, fór til Fossa markaða þar sem hann á að fylla skarð Hannesar Árdals, sem lét af störfum hjá Fossum í apríl, í miðlun skuldabréfa.  

Uppfært klukkan 10:41

Íslandsbanki hefur sent frá sér tilkynningu í kjölfar fréttar Markaðarins. Þar kemur meðal annars fram að auk Ómars hafi Elmar Árnason tekið til starfa í verðbréfamiðlun bankans. Tilkynninguna í heild má sjá hér að neðan.

Ómar Özcan og Elmar Árnason hafa verið ráðnir í verðbréfamiðlun Íslandsbanka. Verðbréfamiðlun er hluti af nýju sviði bankans, Fyrirtæki og fjárfestar, sem þjónar fjárfestum og stórum fyrirtækjum.

Ómar er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík með meistaragráðu í Fjárfestingarstjórnun. Hann hefur undanfarið ár starfað við verðbréfamiðlun hjá Íslenskum verðbréfum og áður hjá Arion banka.

Elmar Árnason er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og löggiltur verbréfamiðlari. Hann hefur starfað undanfarin tíu ár hjá VÍB, eignastýringu Íslandsbanka sem verðbréfaráðgjafi og viðskiptastjóri hjá Einkabankaþjónustu.

Vilhelm Már Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Fyrirtækja og fjárfesta:

„Það er mikill styrkur fyrir okkur að fá Elmar og Ómar til liðs við verðbréfamiðlun bankans en báðir hafa mikla reynslu á fjármálamarkaði. Undanfarin ár hefur íslenskt efnahagslíf verið að glæðast og við sjáum fjölmörg tækifæri á mörkuðum. Nýtt svið bankans, Fyrirtæki og fjárfestar, gefur okkur enn fleiri sóknarfæri og möguleika á að veita viðskiptavinum enn betri þjónustu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×