Erlent

Trump blokkar hryllingssagnahöfundinn Stephen King á Twitter

Kjartan Kjartansson skrifar
Stephen King (t.v.) þiggur orðu úr hendi Baracks Obama. King er síður hrifinn af eftirmanni Obama í embætti forseta.
Stephen King (t.v.) þiggur orðu úr hendi Baracks Obama. King er síður hrifinn af eftirmanni Obama í embætti forseta. Vísir/EPA
Hryllingssagnahöfundurinn heimsþekkti Stephen King segir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hafi blokkað sig á Twitter vegna tíðrar gagnrýni sinnar á forsetann. King getur því ekki lengur séð þau fjölmörgu tíst sem Trump lætur reglulega frá sér.

„Trump er búinn að banna mér að skoða tístin sín. Ég gæti þurft að drepa mig,“ skrifaði rithöfundurinn á Twitter í gær.

King hefur látið forsetann finna fyrir tevatninu á Twitter undanfarna mánuði. Í frétt The Telegraph kemur fram að King hafi meðal annars kallað forsetann „hvatvísan, geðstirðan fávita“ á samfélagsmiðlinum.

Washington Post segir að King hafi meðal annars tíst um Ivönku Trump, dóttur forsetans, og vandræðalegan ríkisstjórnarfund þar sem ráðherrar Trump kepptust við að mæra hann áður en forsetinn blokkaði hann.

Trump hefur blokkað mun fleiri en King á Twitter og hefur það jafnvel vakið upp spurningar um hvort að Bandaríkjaforseta sé stætt að útiloka eigin borgara frá því að lesa yfirlýsingar hans þar. Sean Spicer, blaðafulltrúi Hvíta hússins, sagði meðal ananrs í síðustu viku að tístin væru talin opinberar yfirlýsingar forseta Bandaríkjanna.

Spjallþáttastjórnandinn Stephen Colbert gerði grín að uppákomunni á Twitter. Hann gerir að því skóna að Trump hafi þótt bók King um hræðilegan trúð hitta of nærri markinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×