Viðskipti innlent

Carlsberg semur við íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Höfuðstöðvar Carlsberg.
Höfuðstöðvar Carlsberg. Vísir/Getty
Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið MainManager skrifaði í byrjun júní undir samning við danska bjórframleiðandann Carlsberg um nýtingu á hugbúnaði fyrirtækisins við rekstur höfuðstöðva og verksmiðja bjórframleiðandans í Kaupmannahöfn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá MainManager.

Þar segir meðal annars að MainManager hafi verið valið til að halda utan um nýja verkferla fyrir fyrirbyggjandi viðhald og tilfallandi viðhaldsverkefni auk þess að nýta rýmisstjórnun MainManager til að halda utan um rekstur á núverandi aðalskrifstofum Carlsberg og vöruhúsum þeirra í Kaupmannahöfn.

Í tilkynningunni kemur fram að Finn Chabert, forstöðumaður eignaumsýslu Carlsberg, hafi lýst yfir mikilli ánægju með samninginn.

„Að okkar mati er MainManager hugbúnaðurinn besta IWMS-lausnin (Integrated Workplace Management System) á markaðnum fyrir okkur. Megin krafan var sú að innleiðing rafrænna verkferla einfaldaði daglega vinnu okkar auk þess að gera hana markvissari og sveigjanlegri.

Við trúum því að MainMananger sé þægilegt í notkun og nái að gera nýju ferlana áþreifanlega og auðskiljanlega fyrir starfsfólk okkar og samstarfsaðila. Til lengri tíma litið höfum við einnig miklar væntingar um hvernig við getum notað okkar eigin gögn og upplýsingar í MainManager til að taka betri ákvarðanir um rekstur og viðhald eignasafnsins okkar. “

MainManager ehf. er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki sem þróar hugbúnaðinn MainManager fyrir skandinavískan markað. Hugbúnaðurinn er notaður við rekstur mannvirkja og stýringu á stoðþjónustu.

Höfuðstöðvar MainManager eru á Íslandi en félagið er einnig með dótturfélög í Danmörku og Noregi og samstarfsaðila í Ástralíu og Bretlandi. Meðal viðskiptavina eru norska ríkið, Kaupmannahafnarháskóli, DR byen, Reykjavíkurborg og Isavia.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×