Viðskipti erlent

Uber áfram til vandræða

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Uber
Uber Vísir/Getty
David Bonderman, stjórnarmaður í Uber, sagði að fleiri konur í stjórn myndi eingöngu verða til þess að það yrði „meiri kjaftagangur“ í fyrirtækinu. Þetta sagði hann á stjórnarfundi Uber, þar sem umræðuefnið var meðal annars bætt vinnustaðamenning. Hljóðupptaka af athugasemdum Bondermans lak í fjölmiðla. Í kjölfarið sagði hann sig úr stjórninni og sagði athugasemdirnar hafa verið „kæruleysislegar, óviðeigandi og óafsakanlegar“.

Málefni leigubílaþjónustunnar hafa verið mikið til umræðu síðustu misseri eftir að Susan Fowler, fyrrverandi starfsmaður Uber, sakaði yfirmenn sína um kynferðislega áreitni. Þá tilkynnti Travis Kalanick, forstjóri og einn stofnenda Uber, á þriðjudag að hann hygðist taka sér leyfi frá störfum. Þrjátíu starfsmönnum var vikið frá störfum á dögunum vegna rannsóknar á kynferðislegri áreitni innan fyrirtækisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×