Erlent

Leiðtogi frjálslyndra demókrata í Bretlandi segir af sér

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Tim Farron hefur sagt af sér.
Tim Farron hefur sagt af sér. Vísir/EPA
Tim Farron, leiðtogi flokks frjálslyndra demókrata í Bretlandi, hefur sagt af sér sem leiðtogi flokksins innan við viku eftir þingkosningar þar í landi. BBC greinir frá.

Í yfirlýsingu frá Farron segir að ástæður uppsagnarinnar megi rekja til þess að hann eigi erfitt með að skilja á milli „lífs síns sem kristins manns og stjórnmálaleiðtoga.“

Segir jafnframt í tilkynningunni að Farron sjái eftir því að hafa ekki svarað spurningum varðandi trú sína og skoðanir á kynlífi samkynhneigðra á„viturlegri hátt.“

Að vera leiðtogi, og þá sérstaklega leiðtogi frjálslynds og framsækins flokks á árinu 2017 og að lifa á sama tíma sem kristinn maður sem vill halda loforðum Biblíunnar í hávegum hefur reynst mér ómögulegt.

Hann tekur fram að hann vilji standa vörð um réttindi og frelsi fólks sem er honum ósammála en að honum hafi fundist trú sín gera hann tortryggilegan í augum annarra. Því vilji hann stíga til hliðar til að auðvelda flokksmeðlimum sínum að framfylgja stefnu flokksins og auka trúverðugleika hans. 

Farron tók við stjórn flokksins árið 2015 af Nick Clegg, sem hafði þá leitt flokkinn til valda í samsteypustjórn með Íhaldsflokknum í fimm ár. Flokknum var refsað grimmilega af kjósendum í kosningunum 2015 og missti flokkurinn nærri 50 þingsæti. 

Í kosningunum í síðustu viku fékk flokkurinn tólf sæti í stað þeirra níu sem flokkurinn hafði áður en fékk þó ögn minna fylgi en árið 2015 með 7,4 prósent fylgi í stað 7,9 prósenta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×