Menning

Angurvær e-moll hljómur ómar um sýningarsalinn

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Pallíettustúlka. Sex stúlkur munu skiptast á um hlutverkið í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi í sumar.
Pallíettustúlka. Sex stúlkur munu skiptast á um hlutverkið í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi í sumar.

Nú er komið að öðrum gjörningi af þremur á sýningunni Guð, hvað mér líður illa eftir Ragnar Kjartansson í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsi. Hann nefnist Kona í e-moll og stendur frá 17. júní til 3. september í Hafnarhúsi.

Gjörningurinn felst í því að í miðjum hring úr gylltum strimlum stendur kona í pallíettukjól eins og lifandi stytta á snúningspalli.

Hún er með Fender-rafmagnsgítar um öxl, tengdan magnara, og þegar hún slær á strengina ómar e-moll hljómur um sýningarsalinn. Hljómurinn er sígild undirstaða dægurtónlistar enda liggur hann fyrirhafnarlítið í grunnstillingu hljóðfærisins. Hann er angurvær en um leið ágengur, einkum þar sem hann er endurtekinn í sífellu án tilbrigða.

„Það verða sex konur sem skipta þessu hlutverki með sér. Þær munu þurfa að taka á þolinmæðinni,“ segir Áslaug Guðrúnardóttir, kynningarstjóri Listasafnsins.

Gjörningurinn fór upphaflega fram í samtímalistasafni Detroit-borgar, MOCAD. Þar kallaðist verkið á við þá staðreynd að í borginni spruttu á sínum tíma fram margar afgerandi tónlistarstefnur 20. aldarinnar.

Aðgöngumiði á safnið gildir á gjörninginn en frítt er fyrir handhafa árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira