Enski boltinn

Tuchel vill ekki taka við Dýrlingunum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Thomas Tuchel gæti verið á leið til Englands.
Thomas Tuchel gæti verið á leið til Englands. vísir/getty
Þjóðverjinn Tomas Tuchel er líklegastur hjá enskum veðbönkum til að taka við Southampton sem rak Frakkann Claude Puel óvænt úr starfi í gær. Tuchel segist þó sjálfur, samkvæmt heimildum Sky Sports, ekki hafa áhuga á starfinu.

Sá þýski er sagður áhugasamur um að taka við liði í ensku úrvalsdeildinni og útilokar ekki að þjálfa utan Þýskalands en hefur ekki áhuga á því að taka við Southampton sem er stjóralaust eftir brottrekstur Claude Puel.

Claude Puel leiddi Dýrlingana í úrslitaleik deildabikarsins á sinni fyrstu leiktíð og náði fínum árangri í deildinni en forsvarsmenn Southampton sögðust vilja horfa til framtíðar og finna nýjan stjóra.

Tuchel stýrði Dortmund í tvö tímabil en var rekinn fyrr í þessum mánuði eftir stuttan fund með yfirmönnum félagsins. Hann og framkvæmdastjórin Hans-Joakim Watzke gátu ekki starfað saman.

Tuchel er tölfræðilega besti þjálfari í sögu Dortmund en hann fékk ríflega tvö stig að meðaltali í hverjum leik á tveimur leiktíðum í þýsku 1. deiildinni. Það dugði aftur á móti ekki í baráttunni við stórveldi Bayern München.

Thomas Tuchel tók við starfinu hjá Dortmund af Jürgen Klopp en báðir lærðu fræðin í Mainz-skólanum og voru miklir vinir. Nú gæti farið svo að Tuchel elti Klopp til Englands.

Hollendingurinn Frank de Boer er næst líklegastur til að taka við Southampton samkvæmt veðbönkunum og á eftir honum kemur Mauricio Pellegrino sem síðast stýrði Alaves.


Tengdar fréttir

Puel fékk sparkið hjá Southampton

Southampton staðfesti nú í kvöld að búið væri að segja franska knattspyrnustjóranum Claude Puel upp störfum hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×