Viðskipti innlent

Íris ráðin fræðslustjóri Advania

Atli Ísleifsson skrifar
Íris Sigtryggsdóttir.
Íris Sigtryggsdóttir. Advania
Íris Sigtryggsdóttir hefur verið ráðin fræðslustjóri Advania á Íslandi. Hún mun hafa yfirumsjón með allri almennri starfsmannafræðslu, sérfræði- og stjórnendaþjálfun í fyrirtækinu auk þess að stýra þjálfun og fræðslu fyrir viðskiptavini Advania hérlendis.

Í tilkynningu frá Advania kemur fram að Íris hafi áður verið forstöðumaður markaðsmála hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Greenqloud (2014 til 2017) og verkefnastjóri mannauðs- og markaðsmála hjá Þekkingu (2013 til 2014).

„Þá sinnti hún mannauðs-, markaðsmálum og viðburðastjórnun hjá fjárfestingarfyrirtækinu Sorrento Asset Management og Northern Trust Corp. í Dublin á Írlandi. Íris lauk B.Sc. prófi í viðskiptafræði frá University College Dublin og diplómanámi í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands,“ segir í tilkynningunni.

Starfsmenn Advania á Íslandi eru sex hundruð talsins en alls starfa um þúsund manns hjá fyrirtækinu á tuttugu starfsstöðvum á Norðurlöndum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×