Enski boltinn

Huddersfield kaupir leikmann frá Man. City á 1,3 milljarða króna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aaron Mooy verður áfram hjá Huddersfield.
Aaron Mooy verður áfram hjá Huddersfield. vísir/getty
Nýliðar Huddersfield í ensku úrvalsdeildinni eru byrjaðir að eyða milljörðunum sem renna nú inn á bankareikning þeirra eftir að liðið komst nokkuð óvænt upp í ensku úrvalsdeildina.

BBC greinir frá því að Manchester City sé búið að samþykkja tíu milljóna punda eða 1,3 milljarða króna tilboð nýliðanna í ástralska miðjumanninn Aaron Mooy.

Mooy, sem er 26 ára gamall, kom til City í fyrra frá Melbourne City í leikmannaskiptum en City og Melbourne eru systrafélög. Mooy spilaði ekki leik fyrir úrvalsdeildarliðið heldur var hann lánaður til Huddersfield í B-deildina þar sem hann blómstraði.

Ástralski landsliðsmaðurinn er að upplagi sóknarsinnaður miðjumaður en David Wagner, knattspyrnustjóri Huddersfield, færði hann aftar á völlinn sem svínvirkaði. Þrátt fyrir að spila aftar skoraði hann fjögur mörk og lagði upp önnur sjö.

Huddersfield er sagt borga City átta milljónir punda í fyrstu greiðslu en kaupverðið getur svo farið upp um aðrar tvær milljónir vegna árangurstengdra greiðslna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×