Innlent

Bandaríska heilbrigðisstofnunin veitir 130 milljónir til íslenskrar svefnrannsóknar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Háskóli Íslands hefur átt í formlegu samstarfi um svefnrannsóknir undir stjórn Þórarins Gíslasonar, lungnalæknis, frá árinu 2001.
Háskóli Íslands hefur átt í formlegu samstarfi um svefnrannsóknir undir stjórn Þórarins Gíslasonar, lungnalæknis, frá árinu 2001. Vísir/gva
Bandaríska heilbrigðisstofnunin (National Institute of Health) hefur veitt Þórarni Gíslasyni, yfirlækni á lungnadeild Landspítalans og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, og alþjóðlegum samstarfshóp hans 130 milljón króna styrk til rannsóknar á kæfisvefni. Þetta kemur fram á vef Háskóla Íslands.

Þórarinn hefur stundað lungnalækningar og rannsóknir á kæfisvefni í nær þrjá áratugi og hefur um árabil verið í fremstu röð þeirra vísindamanna sem rannsaka kæfisvefn og áhrif hans á sjúklinga. Styrkurinn sem hann hlaut í vikunni er til fimm ára.

„Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvernig blóðþrýstingssvörun sjúklinga breytist samhliða meðferð með svefnöndunartæki og leitað verður erfða- og lífeðlisfræðilegra skýringa á mismunandi blóðþrýstingssvörun einstaklinga með kæfisvefn. Einnig verður þáttur einstaklingsbundins breytileika í gerð og starfsemi öndunarvegar kannaður með segulómskoðun og lífeðlisfræðilegum mælingum í svefni,” segir um rannsóknina á vef Háskóla Íslands.

Heildarupphæð styrksins til rannsóknar á kæfisvefni er um 1,1 milljarður króna. Hlutur Íslands, og þar með Þórarins, er þar af um 130 milljónir króna en Bandaríska heilbrigðisstofnunin hefur í tvígang áður styrkt verkefni samstarfshópsins.

Þá hafa Háskóli Íslands, Landspítalinn og Háskólinn í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum átt í formlegu samstarfi um svefnrannsóknir undir stjórn Þórarins frá árinu 2001.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×