Viðskipti innlent

Setja á laggirnar íbúarekið leigufélag í Hafnarfirði

Sæunn Gísladóttir skrifar
Áætluð verklok yrðu á næsta ári.
Áætluð verklok yrðu á næsta ári. Vísir/Eyþór
Á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðarbæjar í gærmorgun voru lögð fram drög að stofnsamþykktum íbúarekins leigufélags í bænum sem hefur það að markmiði að lækka leiguverð, draga úr yfirbyggingu og auka aðkomu og þátttöku íbúanna sjálfra.

Að mati bæjarstjóra Hafnarfjarðarbæjar er hér um að ræða stórt framfaraskref innan sveitarfélagsins. Hvatinn að verkefninu er að bregðast við þörf á öruggu leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði. Bæjarráð hefur falið bæjarstjóra að vinna áfram að málinu, segir í tilkynningu.

Í ljósi ástands og aðstæðna á íbúðamarkaði í dag og mikillar eftirspurnar eftir húsnæði í Hafnarfirði telur sveitarfélagið að allar forsendur séu til staðar til að leigjendur komi sjálfir að rekstri og utanumhaldi um leigu á almennum íbúðum. Hugmyndin er að leigjendurnir sjálfir verði aðilar að sjálfseignarstofnun um félagið sem á og rekur íbúðirnar.

Gert er ráð fyrir að félagið fái stofnframlag frá sveitarfélagi og Íbúða­lánasjóði sem nemur samtals 30 prósentum af byggingarkostnaði, sveitarfélagið leggi til 12 prósent og Íbúðalánasjóður 18 prósent. Leiga á svo að standa undir afborgunum og vöxtum af láni. Verklok framkvæmda eru áætluð í lok næsta árs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×