Menning

Það er áhugavert að glíma við trúarleg rými

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Ef einhverjar spurningar vakna á vörum áhorfenda þá reyni ég að hafa einhverjar tillögur að svörum,“ segir Haraldur.
"Ef einhverjar spurningar vakna á vörum áhorfenda þá reyni ég að hafa einhverjar tillögur að svörum,“ segir Haraldur. Vísir/GVA

Ég er að setja upp verkin mín hér í listasal kirkjunnar,“ segir Haraldur Jónsson myndlistarmaður, staddur í Stykkishólmi. Hann opnar þar sýninguna Litrof í dag klukkan 17.

„Faðir minn var arkitekt og það var eitt af hans síðustu verkum að teikna þessa kirkju svo hún tengist mér sterkt. Þetta er fyrsta myndlistarsýningin í þessum sal sem var opnaður í fyrra með ljósmyndasýningu frá Þjóðminjasafninu. Ég átti leið hér um með systur minni og mági á leið í Breiðafjörðinn og við komum að sjálfsögðu við í kirkjunni, þá var komið að máli við mig og mér boðið að sýna hér, það er heiður.“Eitt verkanna á sýningunni í Stykkishólmskirkju.

Sýningin er innsetning, sérstaklega gerð í hliðarrými kirkjunnar og samanstendur af skúlptúrískum einingum og lýsingu ásamt ljósmyndum af lágmyndum, að sögn listamannsins. Þar kveðst hann spinna vissan þráð um hversdaginn, skynjunina, kringumstæðurnar og eilífðarspurningarnar. Hann verður með leiðsögn um sýninguna á morgun, sunnudaginn 18. júní, klukkan 16.

„Eflaust kalla verkin fram ýmis hughrif og ef einhverjar spurningar vakna á vörum áhorfenda þá reyni ég að hafa einhverjar tillögur að svörum,“ segir hann.

Haraldur kveðst hafa sýnt áður í kirkju. „Það er áhugavert að glíma við trúarlegt rými, aðeins önnur stemning en í listasöfnum. Reyndar kynntist fólk fyrst myndlist í kirkjum, svo það er ekkert nýtt í því. Kirkjurnar voru eins og kvikmyndahús gegnum aldirnar þegar altaristöflur voru opnaðar á jólum og páskum,“ bendir hann á.

Á sjómannadaginn opnaði Haraldur sýningu á Ísafirði og nú er þjóðhátíðardagur. „Síðast þegar ég sýndi í Reykjavík var um síðustu alþingiskosningar,“ segir hann. „Svona raðast þetta upp.“

Sýningin stendur yfir til 20. ágúst og er opin daglega frá klukkan 17 til 19 með örfáum undantekningum vegna kirkjulegra athafna.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira