Lífið

Á hund sem heitir Pipar og er rosa góður

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Mér finnst skemmtilegast að syngja og langar að verða söngkona,“ segir Elsa María.
„Mér finnst skemmtilegast að syngja og langar að verða söngkona,“ segir Elsa María. Fréttablaðið/Stefán
Elsa María Kolbeinsdóttir er sjö ára, var að klára 1. bekk í Melaskóla og það er margt áhugavert á dagskránni hjá henni í sumar.

„Ég fer ábyggilega á fimleika­námskeið á næstunni, svo ætla ég í tjaldferð norður í land og tjalda nálægt Sauðárkróki og líka til útlanda og verða í tvær eða þrjár vikur, þá ætla ég í Disney­land.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera heima? „Ég er oft að teikna og reyni að læra af þeim sem eru góðir. Ég teiknaði bláa kisu fyrir ömmu mína í gær. Hún pantaði hana. En mér finnst skemmtilegast að syngja og langar að verða söngkona.“



Hvaða lag syngur þú oftast núna? „Girl on fire sem á íslensku þýðir stelpa á eldi.“

Hvar lærðir þú það? „Ég heyrði það bara hjá mömmu minni.“



Æfir þú á hljóðfæri líka? „Ég var að æfa á fiðlu en ég hætti. En ég vona að ég sé að byrja í kór.“



Hvað heitir besta vinkona þín? „Hún heitir María og við erum oftast að leika saman á skólalóðinni og líka heima hjá mér. Hana langar oftast að koma í heimsókn til mín því ég á hund.“



Áttu hund? Segðu mér frá honum. „Hann heitir Pipar. Hann er rosa góður, hann er bara eins árs í mannalífum en sjö ára í hundalífum svo við erum eiginlega jafngömul.

Hann er bara að læra enn þá en ég held hann sé samt orðinn eins stór eins og hann verður. Við erum rosa góðir vinir og ég fer oft með hann út.

Hann kostaði lítið en það sem er dýrast við hann er að kaupa matinn hans. Hann kostar sjö þúsund pakkinn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×